150. löggjafarþing — 130. fundur,  29. júní 2020.

sjúkratryggingar.

8. mál
[22:34]
Horfa

Frsm. velfn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir andsvarið. Ég er alveg sammála, ég er algerlega og innilega sammála og þakka henni og þingmönnum Viðreisnar fyrir frumkvæðið að þessu máli og fyrir að hafa boðið og leitt þennan stóra hóp þingmanna hér saman í þessu máli af því að þetta skiptir ótrúlega miklu. Ég held að með samþykki málsins og því að öll nefndin stendur saman að því að afgreiða það úr nefndinni séum við að stíga tröllaskref inn í framtíðina þegar við viðurkennum geðrænan vanda, á hvaða stigi sem er, til jafns við líkamlegan vanda. Þá eigum við bara eitt skref eftir, þ.e. að gera tennur að hluta af líkamanum. Þá erum við komin nokkuð langt. En þetta er alla vega tröllaskref sem við erum að taka hér, að viðurkenna að hugur og líkami fari saman. Ég vil því þakka þingmönnum Viðreisnar fyrir frumkvæðið, hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, og þakka nefndinni fyrir samstarfið.