150. löggjafarþing — 130. fundur,  30. júní 2020.

almannatryggingar.

135. mál
[00:32]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf):

Virðulegi forseti. Hér mæli ég fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, fjárhæð bóta, frá minni hluta velferðarnefndar.

Nefndin hefur fjallað um málið og bárust umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Landssamtökunum Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands.

Með frumvarpinu er lögð til breyting á 69. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, þess efnis að bætur almannatrygginga, meðlagsgreiðslur og fjárhæð tekjutryggingar taki sjálfkrafa breytingum ár hvert í samræmi við breytingar á launavísitölu, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.

Samkvæmt núgildandi ákvæði 69. gr. laga um almannatryggingar skulu nefndar fjárhæðir breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun skal taka mið af launaþróun með sama fyrirvara um lágmarkshækkun samkvæmt vísitölu neysluverðs. Ákvörðun um fjárhæð bóta er því í raun á hendi fjármála- og efnahagsráðherra sem ber ábyrgð á gerð fjárlaga. Í framkvæmd hefur ákvæðið verið skýrt þröngt og hafa fjárhæðir að meginstefnu til fylgt vísitölu neysluverðs þótt launaþróun hafi verið jákvæð og launavísitalan hærri. Hefur það leitt til þess að kjör lífeyrisþega hafa ekki fylgt kjaraþróun í landinu með þeim afleiðingum að uppsöfnuð kjaragliðnun þeirra hefur aukist til muna.

Með frumvarpinu er kveðið á um þá grundvallarbreytingu á framkvæmd laganna að fjárhæðir bóta taki sjálfkrafa breytingum miðað við launavísitölu sem gefin er út af Hagstofu Íslands í stað þess að fjármála- og efnahagsráðherra komi að ákvörðun fjárhæða við gerð fjárlaga. Þar að auki er tryggt að kjör öryrkja og ellilífeyrisþega versni ekki á tímum mikillar verðbólgu.

Í umsögnum sem nefndinni bárust frá helstu hagsmunaaðilum þeirra þjóðfélagshópa sem frumvarpið snertir var almennt lýst mikilli ánægju með efni þess. Bent var á mikilvægi þess að frumvarpið kæmi ekki í veg fyrir hækkun lífeyris umfram launa- og neysluverðsvísitölu, t.d. til leiðréttingar á kjaragliðnun síðustu áratuga, stæði vilji löggjafans til þess.

Í þessu sambandi bendir minni hlutinn á að Alþingi getur ávallt breytt fjárhæð laganna eða reikniforsendum þeirra með lagabreytingu. Komi til þess taka þær fjárhæðir eftir sem áður árlegum breytingum í samræmi við launavísitölu verði frumvarpið að lögum. Að mati minni hlutans girðir frumvarpið því ekki fyrir frekari leiðréttingu á uppsafnaðri kjaragliðnun lífeyrisþega á komandi árum.

Minni hlutinn telur frumvarpið fela í sér mikla réttarbót fyrir lífeyrisþega almannatrygginga án þess að samþykkt þess leggi aukna byrði á ríkissjóð. Ætla má að fjárútlát ríkissjóðs aukist ekki nema laun í landinu hækki umfram verðbólgu. Verði launaþróun jákvæð hækka skatttekjur ríkisins samhliða og á sú tekjuaukning að geta staðið undir vísitölutengdri hækkun fjárhæða bóta og annarra greiðslna sem frumvarp þetta tekur til.

Að mati minni hlutans er ljóst að núverandi framkvæmd við árlegar breytingar á fjárhæðum laga um almannatryggingar er ósanngjörn – lögin boða eitt en framkvæmdin er önnur. Frumvarp þetta tryggir samræmda framkvæmd við hækkun fjárhæða almannatrygginga ásamt því að girða fyrir frekari kjaragliðnun lífeyrisþega á komandi árum. Er því mikið réttlætismál að frumvarpið nái fram að ganga.

Frumvarpið var lagt fram sl. haust og hefur síðan þá verið til meðferðar hjá nefndinni. Hefur það leitt til þess að nauðsynlegt er að uppfæra gildistökuákvæði frumvarpsins. Að því sögðu leggur minni hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu: Í stað ártalanna „2020“ og „2019“ í 3. gr. komi: 2021; og: 2020.

Hanna Katrín Friðriksson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu og undir álitið skrifa einnig hv. þingmenn Helga Vala Helgadóttir, Anna Kolbrún Árnadóttir, Halldóra Mogensen auk mín, Guðmundar Inga Kristinssonar.

Ég vil benda á í þessu samhengi að þegar þessi lög voru sett árið 1997 var umræða um þetta efni. Þá var forsætisráðherra Davíð Oddsson og ætla ég að fara orðrétt með úr ræðu hans, með leyfi forseta:

„Varðandi það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talaði um bætur almannatrygginga og þá tengingu sem ákveðin er nú, þá er það rétt hjá honum að forystumenn til að mynda Samtaka aldraðra hafa fagnað mjög þessari tengingu enda má segja að hún sé með tvöföldum lás. Viðmiðunin á að vera við laun en engu að síður er settur annar lás sem á að gæta þess ef svo vildi til, sem við skulum vona að verði ekki á næstu árum, að launin hækki minna en verðlag, eins og hefur nú komið fyrir.“

Síðar í ræðunni segir um bótaþega almannatrygginga, með leyfi forseta:

„Það mun því standa betur að vígi við slíkar aðstæður en launþegar í landinu þannig að ákvæðið er raunverulega með tvöföldum lás.“

Þá segir, með leyfi forseta:

„… því til grundvallar en jafnframt er lagt til að bótaþegum verði veitt trygging fyrir því að fjárhæð þeirra geti aldrei farið niður fyrir það mark sem vísitala neysluverðs segir til um ef laun skyldu þróast með öðrum hætti en verðlag.“

Tvöfaldur lás, belti og axlabönd fyrir almannatryggingaþega. Þetta var árið 1997. Því miður var þessum lögum ekki fylgt. Þess vegna er verið að leggja þetta fram í dag. Við skulum átta okkur á að talað hefur verið um hver kostnaðurinn verði við þetta. Hann er enginn vegna þess að skerðingar í almannatryggingakerfinu gagnvart öryrkjum og eldri borgurum eru komnar yfir 60 milljarða. Sparnaður ríkisins bara á krónu á móti krónu skerðingum er kominn upp í 40–50 milljarða miðað við þegar það var tekið af eldri borgurum. Með sköttum og þessum skerðingum kostar það þar af leiðandi ekki krónu fyrir þessa ríkisstjórn að fara að lögum, sem hæstv. forstætisráðherra á þeim tíma og formaður Sjálfstæðisflokksins, Davíð Oddsson, mælti með og ætlaði að tryggja tvöfaldan lás — tvöfaldan lás. En það hefur alltaf verið einn lás, annar er brotinn og aðeins hinn notaður; vísitalan, og í þeim eina tilgangi að valda kjaragliðnun og taka af almannatryggingaþegum lögbundna hækkun sem þeir eiga rétt á.