150. löggjafarþing — 130. fundur,  30. júní 2020.

almannatryggingar.

135. mál
[00:39]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég er afskaplega þakklát fyrir að við skyldum geta samið um að fá þetta mál hér inn í 2. umr. og væntanlega til atkvæðagreiðslu. Ég býst við að þetta hljóti að vera í fyrsta skipti í sögu þingsins þar sem stjórnmálaflokkur semur málið sitt, sem er í rauninni þegar gildandi réttur, hingað inn. Við erum sem sagt að berjast fyrir því að gildandi lög í landinu, 69. gr. almannatryggingalaga, sé virt og við hana sé staðið, samanber gildandi lög.

Við í Flokki fólksins höfum gjarnan talað um að það sé virkilega bagalegt þegar löggjöfin er þannig úr garði gerð að hægt sé að hártoga hana í allar áttir og að lagaákvæðin séu ekki nægjanlega skýr. Ég get ekki á neinum tímapunkti séð að 69. gr. almannatryggingalaga sé á nokkurn hátt óskýr. Það er algerlega hafið yfir allan vafa í mínum huga að 69. gr. almannatryggingalaga segir nákvæmlega allt sem hún vildi sagt hafa þegar hún var sett á laggirnar hér. Eins og hv. samflokksmaður minn benti á í ræðunni á undan þegar hann fjallaði um nefndarálitið, var það í rauninni algerlega hafið yfir allan vafa árið 1997, þegar greininni var komið inn og reynt var að tryggja framtíðarafkomu almannatryggingaþega svo að viðunandi væri, hvað markmiðið var með reglunni og hvað hún var að segja.

Með leyfi forseta, ætla ég að lesa hana upp hér, hún er ekki það löng. Þá geta hv. þingmenn sem eru hér og hv. landsmenn sem vonandi eru að fylgjast með heyrt hvernig við reynum að berjast fyrir því að halda gildandi rétt á hinu háa Alþingi. Með leyfi forseta, segir svo í 69. gr. almannatryggingalaga:

„Bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr., skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun,“ — takið eftir, skal taka mið af launaþróun — „þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.“

Virðulegi forseti. Ég er að vitna hér í lög nr. 100/2007, 69. gr. almannatryggingalaga, sem þetta hv. Alþingi, löggjafinn sjálfur, samþykkti að koma á laggirnar til að reyna að vera með einhverja ákveðna reglu og utanumhald utan um okkar minnstu bræður og systur, þá sem þurfa að reiða sig á framfærslu almannatrygginga.

Minn ágæti flokksbróðir, Guðmundur Ingi Kristinsson, sagði áðan, og var í rauninni að vísa í tilurð greinarinnar, að ákvæði 69. gr. laga um almannatryggingar ætti rætur sínar að rekja til ársins 1997. Mig langar að segja svona að gamni og bæta pínulítið um betur að það var í rauninni þannig að okkar virðulegi fyrsti forseti og þáverandi þingmaður, Steingrímur J. Sigfússon, var í rauninni ekki alveg öruggur um að greinin væri nógu skýr þegar verið var að setja hana árið 1997 af þáverandi hæstv. forsætisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins, Davíð Oddssyni. Þeir áttu í samtali eins og svo gjarnan verður hér á okkar háa Alþingi þar sem við skiptumst á skoðunum og við reynum að draga hið rétta fram ef við erum í vafa um eitt og annað, við förum í andsvör og alls konar til að reyna að ná áttum í því um hvað málin snúast. Í þessu tilviki, 9. desember 1997, á þinginu, áréttaði Davíð Oddsson að ákvæðið ætti að tryggja að lífeyrir almannatrygginga fylgdi launaþróun nema í þeim tilvikum þegar verðlag þróaðist umfram launaþróun.

Þetta er nákvæmlega það sem við erum að tala um. Það á að vera hafið yfir allan vafa að ef launaþróun í landinu er hærri en þróun vísitölu á að fylgja launaþróun, samanber í janúar síðastliðnum þegar verið var að vísitöluleiðrétta akkúrat framfærslu almannatrygginga sem er ævinlega gert um áramót. Þá vill svo einkennilega til að almannatryggingaþegar fengu sína leiðréttingu upp á 3,7% á meðan almenna launaþróunin í landinu var nær 7%. Þarna sjáum við glögglega viðbótarkjaragliðnun við þá 29% gliðnun sem við vitum að hefur orðið síðustu tíu árin. Við þekkjum líka hvernig það var í kjölfarið á hruninu þegar allar aðrar stéttir fengu leiðréttar þær kjaraskerðingar sem þær höfðu tekið á sig. Þó að erfitt væri að taka á okkur kjaragliðnun og missa af launum okkar og tekjum í því erfiða árferði sem við gengum í gegnum þá þótti okkur það alveg sjálfsagt. En þeir einu sem aldrei hafa fengið leiðréttingu, ekki eina einustu krónu, eru almannatryggingaþegar, öryrkjar og fátækustu eldri borgararnir. Hugsið ykkur.

Það er erfitt að standa undir því en það er enn þá erfiðara að átta sig á hvernig stendur á því að jafnvel sé talað um að ef hækkunin fyrir öryrkja hefði verið t.d. 1% meiri í janúar en þessi 3,7% hefði það kostað ríkissjóð ríflega 600 millj. kr. og ríflega 800 millj. kr. hefði þurft að greiða umfram það til eldri borgara. Hvernig getur nokkrum dottið í hug að leyfa sér að tala um kostnað þegar við erum að tala um að halda gildandi rétt, að láta gildandi lög í landinu segja það sem þau eiga að segja? Á það virkilega að vera svo, eins og ég boðaði þegar ég flutti frumvarpið hér þann 9. október árið 2019 og við erum nú að fá að ræða hér í þinginu, að við þurfum að fylgja því eftir eins og þegar við Flokkur fólksins leituðum réttinda fyrir hönd eldri borgara og unnum það mál gagnvart ríkinu? Það kostaði ríkið ríflega 7 milljarða kr. með vöxtum. Það hefur meira að segja gengið það langt að rætt hefur verið um að betra hefði verið að nýta fjármagnið í eitthvað annað, að sumir sem fengu fjármagn hefðu hugsanlega bara átt nóg af peningum fyrir þannig að betra hefði verið að nýta eitthvað af þessu fjármagni í eitthvað annað. Hvað er verið að segja, virðulegi forseti, þegar gefið er í skyn að við eigum að brjóta lög á borgurunum og sérstaklega á þeim sem eiga þó nóg af peningum fyrir? Ívið verra sé að brjóta lög á hinum sem eru fátækir. Þeir ættu frekar að eiga rétt á því að lögin héldu gagnvart þeim. En hinir? Já, það var allt í lagi að brjóta lögin á þeim. En við segjum: Það er erfitt að horfast í augu við að við þurfum virkilega að fara að sækja núna dómsmál á hendur ríkinu til að reyna að draga það fram hvernig markmiði 69. gr. hefur í raun og veru verið sturtað niður um niðurfallið, hvernig kjaragliðnunin hefur algerlega ómaklega verið látin ná fram að ganga síðustu tíu árin í stað þess að fylgt sé þeirri launaþróun sem lögin segja til um í sambandi við kjarabæturnar. Ég ætla meira að segja að leyfa mér að fabúlera það langt að ég yrði ekki hissa á því að þessi umræða hér um gildandi rétt, á hinu háa Alþingi hjá löggjafanum, ætti eftir að rata inn í einhverjar skólabækur í lagadeildum háskólanna því að þetta er náttúrlega algerlega einstakt. Þetta er í rauninni svo stórfurðulegt að maður nær bara eiginlega engum áttum í því hvernig þetta getur hafa farið svona.

En við erum engu að síður þakklát fyrir að við skulum hér og nú vera komin með þetta mál hér inn þó að okkur hefði þótt betra að við þyrftum ekki að eyða samningsmálinu okkar, eins og talað er um þegar allt fer hér á handahlaupum rétt fyrir þinghlé hverju sinni þar sem er störukeppni dögum og stundum vikum saman um hvað við eigum að fá fyrir okkar snúð til að geta loksins lokið þingstörfunum. Ég er ekki búin að vera hér lengi, virðulegi forseti, en þessi vinnubrögð hugnast mér ekki sérlega vel og ég átta mig engan veginn á þeim. En það er athyglinnar virði að við, Flokkur fólksins, skyldum hafa samið um okkar mál um gildandi rétt, 69. gr. almannatrygginga, sem við teljum að ríkisstjórnin og stjórnvöld hverju sinni hafi núna síðustu árin þverbrotið á almannatryggingaþegum. Hér erum við einungis að óska eftir að því verði fylgt eftir sem ágætur Davíð Oddsson ítrekaði við forseta þingsins á sínum tíma árið 1997: Það er engin ástæða til að ætla að þessu markmiði verði ekki fylgt vegna þess að ég er bæði með belti og axlabönd, eins og hefur komið fram, vegna þess að ef launaþróunin er lægri en vísitöluþróunin þá munu almannatryggingaþegar frá vísitöluhækkun, samkvæmt neysluvísitölu, ef ekki er það launaþróunin í landinu sem á að gilda.

Og það er ekkert annað sem við erum að gera hér en að fá að setja punktinn yfir i-ið, fá að fylgja eftir gildandi rétti, fá að fylgja eftir markmiðinu, fá að fylgja eftir lögskýringargögnum með lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007. Það er ekkert annað sem við biðjum um. Ég vænti þess náttúrlega, miðað við hvað við þessi þingheimur erum ofboðslega klár og hvað við erum klók í löggjöfinni, að við sjáum að það er ástæða til að tryggja að við höldum gildandi rétt.