150. löggjafarþing — 130. fundur,  30. júní 2020.

ávana- og fíkniefni.

23. mál
[01:37]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég bendi þingheimi á að hér er um að ræða breytingartillögur sem eru lagðar fram til þess að bæta málið og koma til móts við þær áhyggjur sem fólk ber fyrir sig til að vera á móti málinu. Að greiða atkvæði gegn þessum breytingum er beinlínis að greiða atkvæði með því að málið verði verra, samkvæmt þeim sem eru á móti málinu, sem og þeim sem eru með því, og er því röklaust með öllu. Þetta eru jákvæðar breytingar að mínu viti og öllum sem hér eru inni, hvað sem þeim finnst síðan um að samþykkja frumvarpið sjálft eða ekki.

Einnig vek ég athygli á því að ef 1. gr. verður felld þá fellur frumvarpið um sjálft sig þannig að þegar þessi breytingartillaga verður samþykkt eða felld, ef 1. gr., svo breytt eða ekki breytt, verður felld, sem mér er ekki ljóst af lestri skjásins akkúrat núna, fellur sjálft frumvarpið. Við sjáum til hvernig fer í þeirri atkvæðagreiðslu. Óháð því þá kemur þessi breytingartillaga til móts við áhyggjur sem sumt fólk hefur sagt að standi í vegi fyrir stuðningi sínum við málið.