150. löggjafarþing — 130. fundur,  30. júní 2020.

ávana- og fíkniefni.

23. mál
[01:38]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Þingflokkur Framsóknar styður hugmyndina um afglæpavæðingu neyslu vímuefna. En því miður er þetta frumvarp ekki nægilega vandað. Samfélagsleg umræða hefur ekki átt sér stað. Samráð og samtal við lögreglu og heilbrigðisstéttir hefur ekki farið fram sem nokkru nemur. Við Framsóknarmenn hlustum á fagfólkið sem kallar eftir nánari útfærslu um leið og við viljum horfa til nágranna okkar sem komnir eru mun lengra en við í þessum efnum.

Hæstv. forseti. Við getum verið sammála um að refsistefna sem hér hefur ríkt virkar ekki sem skyldi. Því þurfum við að fara aðrar leiðir. En meðferð þessa máls afhjúpar tvískinnung Pírata hér í þinginu. Takið leppinn frá augunum, kæru þingmenn. Vinnum þetta betur. Vöndum okkur. Gerum þetta vel og á réttum tíma.

Framsóknarflokkurinn aðhyllist vönduð vinnubrögð og er þess vegna á rauðu í dag. (Gripið fram í.)