150. löggjafarþing — 130. fundur,  30. júní 2020.

tekjuskattur.

27. mál
[01:52]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við eigum eftir að stíga mörg skref við að minnka losun og auka kolefnisbindingu hér á landi. Nú greiðum við atkvæði um eitt slíkt skref og í því felst jákvæður hvati, það er kannski sjaldgæft, til lögaðila til að leggja fé til kolefnisjöfnunar með þeim aðferðum sem best kunna að vera til þess fallnar hverju sinni.

Ég ætla að þakka hv. efnahags- og viðskiptanefnd fyrir snaggaralega og snarlega vinnu við nefndarálitið og fagna afgreiðslunni. Ég sé grænan fyrirtækjarekstur og endurheimt votlendis, uppgræðslu lands og skógrækt taka kipp vegna þessara breytinga á tekjuskattslögum. Ég hvet alla þingmenn hér inni til að vera á grænu í málinu eins og ég.