150. löggjafarþing — 131. fundur,  30. júní 2020.

þingfrestun.

[02:27]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Hv. alþingismenn. Aðstæðna vegna mun ég stytta mjög hefðbundið yfirlit yfir þingstörfin að þessu sinni, nú þegar fundarhöldum er að ljúka á þessu vori. Þess í stað verður gerð ítarleg grein fyrir hefðbundnu efni um þingstörfin og tölfræði í því sambandi á vef Alþingis. Ég vil þó segja þetta:

Þegar Alþingi kom saman hinn 10. september sl., óraði engan fyrir því sem veturinn myndi bera í skauti sér. Vonskuveður í desember með tilheyrandi rafmagnsleysi og eignatjóni gaf tóninn og í kjölfarið sigldu snjóflóð í byggð á Vestfjörðum, land reis og jörð skalf á Reykjanesi og kórónuveiran stakk sér niður á Íslandi í febrúarlok. Þegar faraldurinn hafði rénað að mestu, a.m.k. í fyrstu umferð, tók sig upp hörð jarðskjálftahrina fyrir norðan land.

Áhrif kórónuveirufaraldursins hafa verið gríðarmikil um gjörvalla heimsbyggðina og er Ísland engin undantekning. Nálægt 2.000 smit greindust á Íslandi í vetur og vor og tíu einstaklingar létust. Vottum við aðstandendum þeirra samúð. Það er almannarómur að Íslendingum hafi tekist vel upp í glímu sinni við faraldurinn og það jafnvel svo að vakið hefur athygli alþjóðlega. Almannavarnaþríeykið, Víðir, Alma og Þórólfur, hafa unnið hug og hjörtu landsmanna og þó að einhverjum kunni að finnast það að bera í bakkafullan lækinn skal þeim ásamt öllu framlínufólki öðru í þessari glímu færðar þakkir héðan frá Alþingi. Alþingi hefur notið góðs af ráðgjöf þeirra undanfarna mánuði og þegar óvissan var sem mest um það hvernig við gætum hagað störfum okkar hér á þingi fengum við þau í heimsókn.

Hin efnahagslegu og samfélagslegu áhrif kórónuveirufaraldursins voru jafnframt snögg og mikil og á vormánuðum snerust störf Alþingis nær eingöngu um viðbrögð og ráðstafanir vegna heimsfaraldursins. Starfsumhverfi og -aðstæður þingmanna og starfsmanna Alþingis var einnig krefjandi viðfangsefni. Það tókst að halda Alþingi starfhæfu gegnum faraldurinn sem var ekki sjálfgefið. Og það reyndist gríðarlega mikilvægt, samanber þá tugi þingmála sem við í daglegu tali höfum nefnt Covid-mál og náðum að afgreiða, þar á meðal þrenn fjáraukalög.

Í apríllok fór þinghaldið að færast í venjubundnara horf, þrátt fyrir óvenjulegar kringumstæður á stækkuðu þingfundasvæði, og fleiri mál að komast að en þau ein sem vörðuðu kórónuveirufaraldurinn beint. Frá lokum maímánaðar hafa þingmenn svo getað komið saman í þingsal, með hefðbundinni sætaskipan, og fastanefndir komið saman á fundarstað. Vegna þeirra ófyrirséðu kringumstæðna sem við höfum staðið frammi fyrir hefur þurft að lengja þinghald frá því sem upphaflega var áætlað, enda mikill fjöldi ófyrirséðra mála sem bættist við, eins og áður sagði, alls um þrjátíu tengd heimsfaraldrinum beint.

Setning 151. löggjafarþings verður síðar en venja er eða 1. október 2020 eins og þingheimi er kunnugt um. Frumvarp forsætisráðherra um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis með bráðabirgðaákvæði um samkomudag var samþykkt hér í ágætri sátt. Ástæðuna má rekja, eins og sitthvað annað, til heimsfaraldursins og efnahagslegrar óvissu.

Við frestun þinghaldsins vil ég þakka alþingismönnum fyrir samstarfið og varaforsetum færi ég þakkir fyrir ágæta samvinnu við stjórn þingsins. Jafnframt þakka ég formönnum þingflokka og formönnum stjórnmálaflokkanna samstarfið og þeirra framlag við að leiða til lykta ágreiningsmál svo ljúka mætti þingstörfum nálægt þeim tíma sem áætlað var samkvæmt endurskoðaðri starfsáætlun. Skrifstofustjóra og starfsfólki Alþingis öllu þakka ég fyrir fagmennsku og samvinnu í hvívetna þar sem mikið hefur mætt á, bæði meðan kórónuveirufaraldurinn var í hámarki sem og nú síðustu daga og vikur er þinghaldið fór á fullt skrið. Starfsfólk Alþingis á mikinn heiður og mikinn sóma skilið fyrir sitt framlag.

Ágætu þingmenn. Margt er um Alþingi skrifað og skrafað eins og eðlilegt er og stundum erum við þingmenn býsna hörð í dómum um okkur sjálf. Það er sjaldnar sem Alþingi er hrósað en það skal nú gert og eins þótt það sé forseti Alþingis sjálfur sem það gerir. Ég tel að Alþingi hafi staðist með ágætum erfitt próf, reyndar mörg próf, sem fyrir okkur hafa verið lögð á þessum sérstæða, strembna þingvetri sem nú er að baki og verður væntanlega eftirminnilegur öllum þeim sem hlut áttu að máli. Ég óska utanbæjarmönnum góðrar heimferðar og ánægjulegrar heimkomu og vona að við megum öll hittast hér heil að áliðnu sumri þegar þing kemur saman að nýju.