150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

framhaldsfundir Alþingis.

[10:31]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Ég þakka hæstv. ráðherra hennar góðu orð og býð um leið hv. alþingismenn velkomna til framhaldsfunda 150. löggjafarþings Alþingis sem og heilsa ég starfsfólki Alþingis og þakka því mikið og gott starf við undirbúning þessa þinghalds við óvenjulegar aðstæður.

Samkomulag er um það frá vorinu að þinghaldið standi í u.þ.b. eina viku. Meginverkefni þess er að fjalla um breytingu á fjármálastefnu fyrir árin 2018–2022 og frumvarp um hlutdeildarlán auk mála sem tengd eru kórónuveirufaraldrinum og brýnt er að hljóti afgreiðslu nú.

Ljóst er að verulegur þungi verður í nefndastarfi, einkum í fjárlaganefnd og velferðarnefnd, og því er gert ráð fyrir sérstökum nefndadegi í næstu viku, væntanlega á mánudag.

Það er von mín að þingstörfin gangi vel og okkur auðnist að ljúka með sóma þeim mikilvægu málum sem hér verða á dagskrá næstu daga.

Eins og hv. þingmönnum var greint frá í gær hefur reynst nauðsynlegt að stækka þingfundasvæðið enn frekar frá því sem var í vor í því skyni að mæta kröfum sem nálægðarreglan og almennar sóttvarnareglur setja okkur. Auk efrideildarsalar, ráðherraherbergis og skjalaherbergis er starfssvæði þingfundaskrifstofu nú einnig hluti af þingfundasvæðinu. Hægt verður að greiða atkvæði úr hinum nýju sætum í hliðarsölum og verður sá búnaður að forfallalausu allur kominn í gagnið þegar afgreiðslur mála hefjast í næstu viku.

Þingmenn halda flestir sínum sætisnúmerum en þar sem formenn þingflokka og formenn stjórnmálaflokka skulu hafa sæti í þingsalnum var nauðsynlegt að breyta sætisnúmerum nokkurra þingmanna og ráðherra.

Um þetta fyrirkomulag hef ég haft samráð við forsætisnefnd og formenn þingflokka auk sóttvarnayfirvalda. Það verður til reynslu út yfirstandandi þing og í framhaldinu verður metið hvort sama eða svipað fyrirkomulag verði lagt til áfram á nýju þingi sem hefst 1. október nk.

Til að tryggja sem best sóttvarnir vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, þannig að smithætta verði lágmörkuð og Alþingi verði áfram starfhæft, leggur forseti til að veitt verði tímabundin afbrigði frá þingsköpum í þágu nefndarstarfa, eins og heimilt er samkvæmt 95. gr. þingskapa og gert var sl. vor.

Lagt er til að vikið verði frá 1. mgr. 17. gr. um skyldu nefndarmanna til að mæta á nefndarfundi, og einnig frá 22. gr. um ályktunarbærni nefndarfunda svo þingmenn megi nýta fjarfundabúnað við afgreiðslu mála, tillagna eða til að taka aðrar ákvarðanir á fundum þingnefnda.

Með slíkum afbrigðum yrði vikið frá því skilyrði þingskapa að nefndarmenn þurfi að vera staddir á fundinum til að mynda ályktunarbæran nefndarfund. Á þann hátt er leitast við að skapa nefndarmönnum skilyrði til að sinna nefndarstörfum sínum við núverandi aðstæður.

Leggur forseti til að afbrigði þessi verði veitt til loka þessa þings.

Einnig er lagt til að leiðbeiningar um fundahöld og notkun fjarfundabúnaðar á fundum fastanefnda, sem sendar voru þingmönnum 30. apríl sl., gildi til loka þessa þings.

Afbrigðin skoðast samþykkt án atkvæðagreiðslu ef enginn hreyfir andmælum.

Forseti hyggst nú leita afbrigða fyrir því að taka megi 3. dagskrármálið á dagskrá, en því er útbýtt eftir 1. apríl og ekki er liðinn sá frestur sem 3. mgr. 37. gr. þingskapa áskilur, þ.e. svokölluð fimm daga regla.

Í ljósi aðstæðna óskar forseti eftir því að afbrigðin verði veitt án atkvæðagreiðslu samkvæmt heimild í 1. mgr. 8. gr. þingskapa.

Afbrigðin skoðast samþykkt án atkvæðagreiðslu ef enginn hreyfir andmælum.

Þá er rétt að geta þess að þingfundur mun standa í dag eða kvöld þar til umræðu um 3. dagskrármálið er lokið.

Ætlunin er að gera hálftímahádegishlé eða þar um bil að aflokinni umræðu um munnlega skýrslu forsætisráðherra og áður en umræða um 3. dagskrármálið hefst.