150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

staða mála vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[10:37]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Heimsfaraldurinn, sem nú hefur geisað mánuðum saman, hefur haft áhrif á líf okkar allra í íslensku samfélagi eins og hér á Alþingi, og á því áttuðum við okkur við að hlusta á hæstv. forseta í upphafi þingfundar. Frá upphafi faraldursins, en fyrsta smit hans greindist hér á landi þann 28. febrúar, hefur leiðarljós stjórnvalda verið að forgangsraða heilbrigði þjóðarinnar og því hefur verið gripið til töluverðra sóttvarnaráðstafana til að hefta útbreiðslu faraldursins. Annað leiðarljós hefur verið að lágmarka samfélagsleg og efnahagsleg áhrif faraldursins, bæði til skemmri og lengri tíma, þannig að þau hafi sem minnst áhrif á lífsgæði almennings.

Það er áhugavert að skoða hvernig þjóðir heims hafa tekist á við þennan faraldur. Það hefur verið gert með mjög mismunandi hætti. Þegar við skoðum til að mynda hvernig skólahaldi hefur verið háttað í ýmsum samanburðarlöndum má sjá að Ísland sker sig úr ásamt Svíþjóð í þeirri ákvörðun að halda í leikskólum og grunnskólum opnum. Langflestar Evrópuþjóðir hafa verið með mjög umfangsmiklar skólalokanir á leik- og grunnskólastigi sem hefur auðvitað haft veruleg samfélagsleg áhrif og efnahagsleg áhrif, en líka áhrif á menntun barna sem jafnvel hafa verið lokuð inni vikum saman, eins og til að mynda á Spáni. Því má segja að sú aðgerð og ákvörðun að halda skólunum opnum hafi verið ein mikilvægasta samfélagslega aðgerðin sem stjórnvöld hafa gripið til til að mæta þessum faraldri. Sömuleiðis hefur verið gripið til umfangsmikilla efnahagslegra ráðstafana sem ég ætla ekki að telja upp en meginleiðarljósið hefur verið að verja störf, skapa störf og tryggja afkomu.

Síðustu aðgerðirnar sem kynntar hafa verið voru kynntar í gær og verða til umræðu á þessu síðsumarsþingi, en það eru umfangsmiklar vinnumarkaðsaðgerðir sem fela í sér að veita atvinnuleitendum tækifæri til að sækja sér nám og halda atvinnuleysisbótum, framlenging launa í sóttkví, sem var ein fyrsta aðgerðin sem gripið var til og hefur bæði reynst mikilvæg sóttvarnaráðstöfun og vinnumarkaðsaðgerð, framlenging hlutastarfaleiðar og tvöföldun á því tímabili þar sem fólk getur haldið tekjutengdum atvinnuleysisbótum, sem er gríðarlega mikilvægt og nær fram því mikilvæga markmiði að tryggja afkomu fólks með betri hætti.

Þá vil ég nefna umfangsmiklar fjárfestingar sem hófust á árinu 2020 þar sem við höfum verið að beita krafti ríkisfjármálanna til þess að skapa störf og fjárfesta í ólíkum verkefnum, hvort sem það eru grænar lausnir, samgöngumannvirki, grunnrannsóknir, nýsköpun, stafræn þróun og skapandi greinar eða byggingarframkvæmdir. Ríkisstjórnin mun kynna áframhaldandi fjárfestingarátak samhliða fjárlögum og fjármálaáætlun þar sem afli ríkisfjármálanna verður beitt með þessum hætti til að auka verðmætasköpun svo að við getum vaxið út úr þessari kreppu en staðið um leið vörð um heilbrigðis- og velferðarkerfið og tryggt þeim sem standa frammi fyrir atvinnumissi ný tækifæri, hvort sem er með nýjum störfum eða menntunartækifærum.

Ég held að við sem erum í þessum sal getum öll verið sammála um að íslenskt samfélag hefur í senn sýnt sveigjanleika og seiglu, bæði við að komast út úr fyrstu bylgju faraldursins en líka núna þegar við stöndum í annarri bylgjunni miðri. Hins vegar hefur umræðan farið vaxandi, sem er gott, um það hvernig takast eigi á við faraldurinn. Það er eðlilegt í ljósi þess að þekking okkar er meiri nú en hún var í upphafi og sömuleiðis hefur faraldurinn auðvitað haft gríðarlega víðtæk áhrif.

Eins og kunnugt er voru fyrstu skrefin stigin í að greiða fyrir umferð um landamæri þann 15. júní. Þeirri ákvörðun fylgdu hins vegar skýr fyrirheit um að gripið yrði inn í með afgerandi hætti ef faraldurinn færi aftur á flug. Ég tel að sú aðgerð sem þá var ráðist í, þ.e. að taka upp skimun á landamærum, hafi sannað gildi sitt og hún hefur sannarlega komið í veg fyrir að fjöldi smita bærist inn í landið. Um leið hefur þessi aðgerð veitt okkur mikilvægar upplýsingar um veiruna sem munu nýtast til að efla rannsóknir og auka þekkingu á þessum vágesti. Þegar reynsla var komin á skimunina var ákveðið þann 13. júlí að Íslendingar og þeir sem eru búsettir hérlendis þyrftu að fara í tvær sýnatökur og viðhafa heimkomusmitgát vegna þess að þeir væru í meiri samfélagslegum tengslum en ferðamenn og því þyrfti að viðhafa sérstaka varúð. Eigi að síður þurfti að grípa í handbremsuna þann 30. júlí og setja aftur á fjöldatakmarkanir og fjarlægðarmörk innan lands eins og sjá má í þessum þingsal.

Staðreyndin er sú að faraldurinn er í vexti í heiminum. Smitum á landamærum hefur fjölgað í réttu hlutfalli við það. Það er áhugavert að skoða þær tölur þar sem alls hafa verið tekin um 120.000 sýni úr komufarþegum frá 15. júní, þar af um 20.000 vegna seinni sýnatöku. Virk smit sem hafa greinst við landamæraskimun eru 83 fyrstu vikurnar og þetta er áhugavert. Eftir breytingarnar 15. júní voru flest smitin óvirk en það hefur algjörlega snúist við seinni hluta sumars og það endurspeglar þróun faraldursins í Evrópu. Niðurstaða ríkisstjórnarinnar, að fengnum tillögum okkar færustu vísindamanna, var að herða aðgerðir á landamærum með því að taka upp tvöfalda skimun með 5–6 daga sóttkví á milli sem valkost við 14 daga sóttkví. Þar var byggt á reynslunni af aðgerðunum frá 13. júlí um heimkomusmitgát. Þær voru útvíkkaðar og aðgerðirnar voru hertar. Ákvörðunin byggist á þróun faraldursins hér heima og erlendis en líka á þeim leiðarljósum sem við settum okkur í upphafi, þ.e. að verja heilsu fólks og lágmarka samfélagsleg og efnahagsleg áhrif.

Töluvert hefur verið rætt um hagræn áhrif af þessari ákvörðun og lét ríkisstjórnin vinna hagræna greiningu í aðdraganda þess að farið var að skima á landamærum sem var svo uppfærð með tilliti til reynslunnar. Þar þarf þó að vinna áfram að hagrænum greiningum því að þetta er flókið viðfangsefni. Ég hlýt þó að segja hér að þær ferðatakmarkanir sem ákveðnar eru hér á landi eru að sjálfsögðu ekki það eina sem ræður fjölda ferðamanna. Þar skipta ferðatakmarkanir annarra ríkja líka máli þar sem Ísland hefur ýmist verið að færast nær rauðum listum annarra ríkja eða er beinlínis lent þar inni. Sömuleiðis hefur ferðavilji fólks dregist saman, eðlilega, og þegar við skoðum stöðu ferðaþjónustunnar í heiminum er útlit fyrir að þeim sem ferðast milli landa í heiminum fækki um rúman milljarð á þessu ári, samkvæmt nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna um áhrif heimsfaraldurs á ferðaþjónustuna. Þar kemur fram að millilandafarþegum hafi fækkað um 56% fyrstu fimm mánuði ársins og í maí hafi fækkunin verið 98% frá sama mánuði í fyrra og að heildarfækkun millilandafarþega verði á árinu 2020 allt að 58–78% sem þýðir fækkun um rúman milljarð farþega. Það eru um 120 milljónir starfa í hættu. Þau áhrif sem við sjáum hér á landi, og eru þung fyrir íslenska ferðaþjónustu, eru svo sannarlega ekkert einsdæmi og það skiptir máli að við bæði styðjum við þessi fyrirtæki en nýtum líka tækifærið til að horfa til lengri tíma, til framtíðarsýnar, fyrir ferðaþjónustuna. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þar mun Ísland eiga mikil sóknarfæri, bæði vegna okkar einstæðu náttúru en líka vegna þeirrar faglegu ferðaþjónustu sem hér hefur byggst upp.

Áhugavert er að skoða tölur um samdrátt í heiminum á öðrum ársfjórðungi. Það sem sjá má út úr tölum Eurostat er að ekki er hægt að draga ályktanir um að harðar sóttvarnaráðstafanir skili sjálfkrafa meiri samdrætti. Þannig er til að mynda samdrátturinn í Svíþjóð, sem gengið hefur vægast fram af Norðurlöndunum í sóttvarnaráðstöfunum, meiri en í Danmörku og Finnlandi. Inn í það spilar að sjálfsögðu samsetning hagkerfanna og enn áhugaverðara er að fara víðar um í Evrópu og sjá til að mynda samdrátt í Bretlandi sem er u.þ.b. 20% á öðrum ársfjórðungi þessa árs. Það er ekki ofsögum sagt að við stöndum líklega frammi fyrir dýpstu efnahagslægð í heila öld.

Að lokum vil ég nýta nokkur orð á þessum skamma tíma til að fara yfir þetta víðfeðma mál um hin borgaralegu réttindi, sem er mikilvæg umræða. Það er alveg ljóst að sóttvarnaráðstafanir hafa svo sannarlega haft áhrif á réttindi landsmanna þó að, eins og ég benti á áðan, óvíða í Evrópu hafi frelsi fólks verið jafn lítið takmarkað og hér á landi síðustu sex mánuði. Ég vil vekja athygli þingmanna á því að á þingmálaskrá heilbrigðisráðherra, sem lögð verður fram við þingsetningu 1. október, má finna frumvarp um endurskoðun sóttvarnalaga, þar sem Alþingi mun fá tækifæri til að fjalla um valdheimildir þeirra laga.

Herra forseti. Það skiptir máli að við ræðum þau borgaralegu réttindi í samhengi. Það hversu hratt fólk kemst yfir landamæri Íslands er ekki það eina sem máli skiptir. Það þarf að líta til skólastarfs og menningar- og íþróttastarfs. Það þarf að líta til þess að í vor voru settar gríðarlega umfangsmiklar hömlur á atvinnuréttindi þúsunda manna og gleymum ekki þeim takmörkunum sem hafa verið settar á réttindi eldra fólks, þeirra sem búa á hjúkrunarheimilum og þeirra sem haldnir eru alvarlegum sjúkdómum sem hafa í raun búið við verulega félagslega einangrun allt frá því að faraldurinn skall á. Það er kannski ágætt að rifja upp regluna sem John Stuart Mill setti fram í bók sinni um frelsið, að einungis væri heimilt að skerða athafnafrelsi einstaklings ef um sjálfsvörn væri að ræða. Ætli hún eigi ekki svo sannarlega við í þessu tilfelli þegar við ræðum um þennan heimsfaraldur.

Ágæti forseti og þingmenn. Baráttunni við veiruna er hvergi nærri lokið. Ég held að sameiginlegt markmið okkar allra, þegar þeirri baráttu lýkur, verði að geta litið aftur og sagt að okkur hafi saman tekist að vernda heilsu, efnahag og frelsi okkar þannig að þjóðlífið allt verði fyrir sem minnstum skaða og þjóðinni muni takast að vinna hratt til baka það sem tapast hefur í þessum faraldri.

Ég fagna þeirri umræðu sem hér fer fram því að það er gríðarlega mikilvægt í opnu lýðræðissamfélagi að umræða fari fram um ólíka þætti þessarar baráttu. Við þurfum að ræða það með gagnrýnum hætti hvernig við grípum inn í daglegt líf fólks og hvernig efnahagslífi þjóðarinnar verði sem best borgið. Þó tel ég að nokkuð góð samstaða hafi verið um meginmarkmiðin, að verja heilsu fólks, lágmarka skaðann fyrir samfélag og efnahag. Að sjálfsögðu deilum við öll þeirri von að sá vetur sem er fram undan færi okkur góð tíðindi í baráttunni við veiruna en við vitum það líka af reynslu undanfarinna mánaða að það er best að fagna ekki fyrr en við höfum það í hendi.