150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

staða mála vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[10:48]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Við upphaf heimsfaraldursins lýstum við þingmenn Miðflokksins því yfir að við myndum styðja ríkisstjórnina í öllum þeim aðgerðum sem gætu verið til þess fallnar að draga úr áhrifum þessa faraldurs. Það höfum við gert, jafnvel þótt aðgerðirnar hafi ekki að öllu leyti verið í samræmi við það sem við hefðum helst viljað gera, enda kannski ekki við því að búast. Þó ákváðum við að kynna okkar eigin tillögur að aðgerðum og höfum gert það í tvígang. En nú þegar komin er eins mikil reynsla á þetta viðfangsefni og raun ber vitni og liðið hálft ár skyldi maður ætla að ríkisstjórnin væri a.m.k. komin með markmið um það hvernig eigi að takast á við þetta, en markmiðið er í rauninni enn óljósara núna en það var í upphafi. Við vitum ekki hvort markmið stjórnvalda er að fletja kúrfuna, eins og það var orðað, eða hvort markmiðið er að koma alveg í veg fyrir smit eða hvort markmiðið er eitthvað annað. Öll þessi ólíku markmið geta haft sína kosti og galla en stjórnvöld þurfa við þessar aðstæður að hafa eitthvert markmið til að hægt sé að gera plan, gera áform til að ná því markmiði. Á meðan markmiðið er óljóst og ekki til staðar ríkir óvissa.

Óvissan er allsráðandi þessi misserin þegar fylgst er með því hvernig stjórnvöld takast á við vandann. Í rauninni er ýtt undir óvissu með því að taka eina ákvörðun einn daginn en svo ákvörðun sem gengur í allt aðra átt þann næsta. Ef til staðar væri plan og jafnvel einhverjar upplýsingar um hvernig stjórnvöld hygðust ná markmiðinu gætu menn lagað sig að því. Þá gæti fólkið í landinu og fyrirtækin gert ráðstafanir til samræmis við það. Þá gætu stjórnvöld líka gert sínar ráðstafanir til að aðstoða fólkið og fyrirtækin og laga þær ráðstafanir að þróun mála og aðferðunum sem unnið er eftir. Þess í stað eru áfram sýndar nýjar og nýjar glærur sem í mörgum tilvikum verður lítið úr eða þær reynast jafnvel úreltar þegar næstu áform eru kynnt. Frægt er að flaggskipsaðgerðin sem kynnt var í upphafi, brúarlánin svokölluðu, og var notuð til að búa til þessa ímynduðu 230 milljarða tölu, 230 milljarða aðgerðir, þið munið eftir þessu, hefur engu skilað. Það hefur ekki eitt einasta brúarlán verið veitt. Ýmis vandamál hafa komið upp varðandi lokunarstyrkina, afgreiðsla stuðningslánanna hefur ekki gengið eins hratt og menn gerðu ráð fyrir en á sama tíma hafa menn algerlega litið fram hjá því að ráðast í aðgerðir sem gætu verið til þess fallnar að efla atvinnulífið til langs tíma, hluti á borð við lækkun tryggingagjalds eða tekjuskatts, hvetjandi aðgerðir sem geta orðið til þess að fjölga störfum og auka verðmætasköpun. Þess í stað er áfram ausið fjármagni í alls konar, það er eiginlega ekki hægt að kalla það annað en vitleysisverkefni. Hvernig geta menn ætlað að halda sig við það að verja 50 milljörðum kr. af ríkisfé í borgarlínu við þessar aðstæður þegar við þurfum að fjárfesta í einhverju sem skilar raunverulegri verðmætasköpun? Ýmis loforð eru gefin um tugi milljarða hingað og þangað á meðan báknið heldur áfram að vaxa. Við þurfum, ekki hvað síst við þessar aðstæður, að fara mjög vel með fjármagn ríkisins og nýta það til að búa til störf og ný verðmæti sem skila sér til langrar framtíðar.