150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

staða mála vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[11:00]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Undanfarnir mánuðir hafa verið mörgum Íslendingum þungbærir og því miður er útlit fyrir að komandi vetur verði enn fleirum erfiður. Fólk hefur mátt þola mikla röskun á daglegu lífi, skerðingu margvíslegra lífsgæða, minna samneyti við ástvini í viðkvæmum hópum sem þurfa einmitt hvað mest á samveru og stuðningi að halda, og margir hafa misst lífsviðurværi sitt.

Okkur gekk vel að hafa hemil á fyrstu bylgju kórónuveirunnar, en við höfum verið minnt á að það er ekki átaksverkefni sem hægt er að afgreiða á nokkrum vikum heldur verður það viðvarandi verkefni enn um sinn. Okkur líður kannski mörgum eins og við séum að hefja seinni hálfleik í þeirri viðleitni en staðreyndin er sú að við vitum ekki hvort sá kafli sem nú er að hefjast er seinni hálfleikur eða kannski annar leikhluti af fjórum eða önnur lota af níu. Við þurfum að horfast ískalt í augu við þann möguleika að kórónuveiran og afleiðingar faraldursins verði áfram örlagavaldur í heiminum. Þótt allir vonist eftir því að bóluefni eða betri læknismeðferðir muni eyða þessari hættu úr samfélaginu getum við ekki leyft okkur að veðja framtíð íslensku þjóðarinnar á þá von.

Skylda okkar er að finna leiðir til að koma Íslandi aftur í gang, draga úr skaðanum á samfélagið í heild og gera þjóðinni mögulegt að lifa í samfélagi sem einkennist af framtakssemi og lífsgleði en ekki doða og kvíða. Við Íslendingar getum sannarlega verið stolt yfir því hvernig við brugðumst við þegar óvissan var alger og ótti og taugaveiklun greip um sig víða um heim. Fumlaus viðbrögð á Íslandi vöktu athygli og á grundvelli þeirra eigum við möguleika á því að halda áfram að spila eins vel úr erfiðri stöðu og hægt er. En eftir því sem dregur úr óvissunni, þeim mun yfirvegaðri ákvarðanir getum við tekið og þeim mun betur er hægt að meta áhættuna og viðbrögð við henni.

Nú, næstum níu mánuðum eftir að kórónuveiran kom fyrst fram á sjónarsviðið, vitum við sem betur fer margt miklu betur. Þann lærdóm þarf að meðtaka og nýta til þess að koma lífinu á Íslandi sem fyrst í betra horf. Að lifa með veirunni krefst þess að við sýnum æðruleysi, tökum því sem að höndum ber og höfum úthald til að gera það sem þarf og standa saman í því. Enginn þarf að efast um að ríkisstjórnin hefur sett það í algjöran forgang að hafa hemil á þeirri bylgju faraldursins sem gerði sig líklega til að fara úr böndunum fyrir nokkrum vikum. Hertar smitvarnir á landamærunum endurspegla þá forgangsröðun þótt augljóslega hafi þær aðgerðir engin áhrif á það smit sem þá þegar var komið inn til landsins og hefur náð dreifingu. Dæmin um heim allan sýna glögglega að það er óraunhæft markmið í opnu og frjálsu samfélagi að komast algjörlega hjá því að kórónuveiran skjóti upp kollinum. Það sést hinum megin á hnettinum þar sem nær alger lokun landamæra dugði ekki til til þess að koma algjörlega í veg fyrir hættuna á nýju smiti og eru samfélögin þar látin sæta harkalegum takmörkunum til að reyna að koma í veg fyrir dreifingu.

Það er eðlilegt að skiptar skoðanir séu um hvort nauðsynlegt hafi verið að ganga eins langt og við höfum gert. Það verður aldrei sannað og heldur aldrei afsannað. Í öllum þessum hildarleik höfum við mörg þurft að sætta okkur við að taka sem gott og gilt svarið: Ég veit það ekki. Og við, ráðamenn þjóðarinnar, höfum líka þurft að hafa nægilegt sjálfstraust til að svara góðum og gildum spurningum með orðunum: Ég veit það ekki. En við vitum sífellt meira og eitt vitum við fyrir víst: Markmið okkar er að daglegt líf færist sem fyrst í eðlilegt horf.

Ég hef áður sagt að það sé mikilvægt að við dýpkum stöðugt greiningu okkar á því hvar hið gullna jafnvægi liggur, annars vegar á milli þess að lágmarka líkur á hópsmiti með hörðum sóttvörnum, og hins vegar að lágmarka samfélagslegt og efnahagslegt tjón sem slíkar sóttvarnir valda. Það er erfitt mat sem verður alltaf háð einhverri óvissu. Við þurfum að sýna auðmýkt gagnvart þeirri staðreynd. Við þessar aðstæður standa nokkur forgangsverkefni upp úr til viðbótar við höfuðmarkmið okkar um að halda faraldrinum í skefjum. Í fyrsta lagi að halda áfram eftir megni að koma til móts við fólk og fyrirtæki með mótvægisaðgerðum. Í því augnamiði verða nokkur stór og þýðingarmikil mál tekin fyrir á þessu þingi. Í öðru lagi er það verkefni okkar að festast ekki innan lokaðra landamæra lengur en hægt er að réttlæta með mjög sterkum rökum. Efnahagslífið þolir ekki slíka lokun og gildir það um alla anga efnahagslífsins. Án góðs sambands við umheiminn bresta forsendur efnahagslegrar velsældar okkar. Við Íslendingar erum mjög háð því að kaupa vörur og þjónustu frá útlöndum en til þess þurfum við erlendan gjaldeyri. Það má ekki vanmeta þau vandræði sem það veldur okkur ef sú uppspretta nýrra, dýrmætra gjaldeyristekna hverfur um lengri tíma. Í þriðja lagi þurfum við að grípa þau tækifæri sem gefast til nýrrar sóknar. Viðspyrna í ferðaþjónustu mun vega þungt í þeirri sókn þegar þar að kemur, en við þurfum líka að hugsa um aðra þætti og þar leikur nýsköpun mjög stórt hlutverk. Við höfum stigið afgerandi skref til að efla nýsköpun og má þar nefna 700 millj. kr. hækkun á framlagi til Tækniþróunarsjóðs og 700 milljónir til nýs úrræðis sem við köllum Stuðnings-Kríu og er ætlað að efla lífvænleg sprotafyrirtæki sem lentu í rekstrarvanda vegna Covid, auk hækkunar á endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar og fleiri aðgerða.

Herra forseti. Við þurfum að hemja faraldurinn og tryggja líf og heilsu. Í þeirri viðleitni höfum við notið góðs af traustri forystu og þrotlausu starfi frábærrar framlínu á öllum stigum sem seint verður fullþakkað. Við þurfum að geta skapað verðmæti, störf og tekjur, sem eru undirstaða lífskjara okkar og lífsgæða. Þá vandrötuðu leið fetum við nú í öruggum skrefum. Faraldurinn reynir á þolgæði allra því meira sem hann dregst á langinn en með öflugri forystu, þrautseigju og samstilltu átaki mun það markmið nást að komast á sem farsælastan hátt yfir þessa erfiðu áskorun.