150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

staða mála vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[11:06]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Á vormánuðum lagði ríkisstjórnin fram aðgerðapakka til að bregðast við efnahagsástandinu sem við blasti. Nú þegar dregur nær hausti er ljóst að sumar aðgerðirnar hafa gagnast ágætlega en aðrar síður. Sumar hafa veitt fyrirtækjum tímabundna björg og varið störf en margar hafa náð ansi stutt. Sumar hafa ekki komið til framkvæmda og ekki hjálpað neinum. Aðgerðirnar sem ríkisstjórnin lagðist í voru fyrirsjáanlegar. Þær snúast um að vernda núverandi hagkerfi, tekjustreymi fyrirtækja og þá geira atvinnulífsins sem hafa náð eyrum ríkisstjórnarinnar. Þær snúast ekki um að vernda fólkið, því enginn sem ríkisstyrkir uppsagnir getur sagst bera hag fólksins fyrir brjósti. Þær snúast ekki um að bregðast við breyttum raunveruleika heldur um að halda sem fastast í allt það sem áður hefur komið.

Nú hefur kallið komið frá því einkafyrirtæki sem á í hvað beinustu talsambandi við ráðherra ríkisstjórnarinnar, Icelandair. Nú er ljóst að öll úrræðin hingað til hafa ekki dugað þó að sum þeirra hafi verið sérhönnuð fyrir fyrirtækið og beina aðkomu ríkisins þarf til að bjarga því. Nú á að veita ríkisábyrgð á lánalínu, allt að 16,5 milljörðum kr., og sú upphæð er ofan á alla þá milljarða sem þegar hafa farið til félagsins í gegnum ríkissjóð með hlutabótaleiðinni, uppsagnarstyrknum og öðrum aðgerðum. Lánveitandinn verður banki í ríkiseigu og íslenska þjóðin í sjálfskuldarábyrgð. Og hvað fær ríkið fyrir þessa notkun á almannafé? Ekki hlut í félaginu. Það telur fjármálaráðherra óeðlileg afskipti ríkisins, jafnvel þó að nágrannaþjóðir okkar margar eignist nú hluti í sínum flugfélögum.

Forseti. Hversu mikilli orku hefur ríkisstjórnin eytt í að ganga á eftir hverri einustu kröfugerð Samtaka atvinnulífsins? Hversu mikið af almannafé hefur farið til atvinnurekenda til að segja upp starfsfólki þegar við hefðum allt eins getað gefið almenningi féð til að tryggja öllum lífsviðurværi og styrkja hagkerfið innan frá? Í staðinn voru efnahagslegu aðgerðirnar fyrir fólkið í landinu lagðar upp þannig að þær skyldu vera sem þrengstar og afmarkaðastar til að koma í veg fyrir of mikil útgjöld. Grunnhugsunin, sérstaklega þegar kom að aðgerðum í þágu launafólks, var að skilyrðin yrðu ströng og kerfið stíft til að draga úr aðsókn. Áhrifin eru óumflýjanlega þau að fólk fellur á milli, í glufurnar, og hver fjölskylda sem fellur í þær horfir fram á áhyggjur, kvíða og skert lífsgæði.

Við eigum ekki, forseti, að troða fólki í ferköntuð kerfi. Við eigum að sníða kerfin að fólkinu, búa til sveigjanleika og afnema skilyrði og skerðingar tímabundið á meðan vinnumarkaðurinn er að jafna sig. Hversu lengi ætlar ríkisstjórnin að neita að horfast í augu við breyttan raunveruleika og hvenær ætlar hún að fara að nýta drifkraftinn og hugvitið í íslensku samfélagi í nýsköpun og frumkvöðlastarf í stað fjöldaframleiddra láglaunastarfa? Hvenær fáum við að sjá hugsjónir forsætisráðherra í verki? Aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru í einu orði sagt íhaldssamar alveg eins og fólkið sem hafði að þeim frumkvæði.

Forseti. Á meðan ég sakna þess að sjá hugsjónir forsætisráðherra í aðgerðum ríkisstjórnarinnar þá þykja mér hugsjónir fjármálaráðherra skína mjög skýrt í gegn, því miður. Nú þegar þúsundir þurfa að framfleyta sér og fjölskyldum sínum á strípuðum atvinnuleysisbótum heyrist eðlilega ákall um að bæturnar séu með þeim hætti að hægt sé að lifa af þeim. En fjármálaráðherra, sjálfur formaður Sjálfstæðisflokksins, segir það ekki skynsamlegt að hækka þær, með því sé dregið úr hvata fólks til að vinna. Það er ekki bara andfélagslegt af hæstv. ráðherra að halda því fram heldur er það einnig óupplýst afstaða, byggð á gögnum sem eiga ekki við um núverandi ástand. Þetta er rangt hjá fjármálaráðherra. Vinnumarkaðsrannsóknir segja okkur að áhrifin af tímabundinni rýmkun bótaskilyrða og -fjárhæða í kreppuástandi hafi lítil eða engin áhrif á aðsókn í störf og miklu frekar tryggi hún áframhaldandi neyslu og standi vörð um hagvöxt á meðan kreppa gengur yfir.

Það sem fjármálaráðherra skilur ekki er að þær efnahagsþrengingar sem heimsfaraldurinn hefur valdið kalla á nýja sýn á velferðarkerfið og nýja nálgun sem grípur alla í samfélaginu án skilyrða eða skerðinga. Að tryggja efnahagslegt öryggi allra á þessum óvissutímum er nefnilega fjárfesting. Með því að vernda lífsafkomu fólks verndum við hagkerfið og hvetjum til aukinnar nýsköpunar og sveigjanleika sem er nauðsynlegur til að byggja upp vinnumarkað framtíðarinnar. Það er ekki til marks um háleitar hugsjónir að dæla peningum í veröld sem var. Í efnahagslegu tilliti gekk okkur ágætlega í nokkur ár. En við þurfum að vera undir það búin að sá veruleiki komi ekki aftur. Nú er nauðsynlegt að horfa fram á veginn og styðja við næstu stóru hugmyndir. Það er ekki okkar að segja hverjar þær eru og það ætti ekki að vera þannig. Fjölmargir einstaklingar og fyrirtæki bíða í startholunum með hugmyndir sem hafa alla burði til að verða að undirstöðuatvinnugreinum. Það sem vantar er fjármagn til að koma þeim af stað og það er það sem þessi ríkisstjórn ætti að vera að gera, að skapa störf morgundagsins með því að fjármagna nýsköpun, listir, menningu og rannsóknir í stað þess að ríghalda í fortíðina.

Svo verð ég í lokin að benda á að hæstv. forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, hafði sögulegt tækifæri árið 2017 til að innleiða nýja stjórnarskrá með samstarfi flokka sem virða lýðræðislega afstöðu þjóðarinnar. Við gætum verið á þeim stað í dag að auðlindir þjóðarinnar væru í hennar eigu og að við fengjum af henni sanngjarnan arð. Þess í stað höfum við séð auðlindarentu þjóðarinnar fara minnkandi í valdatíð þessarar ríkisstjórnar og þess í stað heyrum við nú suð íhaldsins um að nú skuli draga saman í öllum helstu öryggiskerfum. Ég þakka bara fyrir það að þessi ríkisstjórn eigi bara eitt ár eftir og vona að henni takist ekki að skaða samfélagið frekar með nýfrjálshyggjutrúarofstæki sínu á tímum þar sem samfélagsleg sátt veltur á samkennd, samheldni og samvinnu. Höfum það í huga í næstu kosningum.