150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

staða mála vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[11:17]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Við skulum hafa það hugfast að ríkisstjórnin tók við ágætu búi. Fyrst um sinn var vissulega ekki þverfótað fyrir loforðum um aukin ríkisútgjöld og pólitískan stöðugleika og þau stóðu við sitt framan af. Umsvif hins opinbera héldu áfram að aukast verulega. Stöðugleikinn var tryggður fyrir suma og lítið var gert til þess að minnka skattbyrði á einstaklinga og atvinnulíf samhliða. Þó voru teikn á lofti um kólnun hagkerfisins strax á fyrsta ári ríkisstjórnarsamstarfsins. Ríkissjóður var síðan orðinn ósjálfbær á síðari hluta ársins 2019. Óveðursský hrönnuðust upp. Ekki hafði mælst jafn mikill samdráttur í útflutningi í 30 ár. Atvinnuleysi hafði ekki mælst jafn mikið árum saman. Það var loðnubrestur. Það var óvissa í áliðnaði. Fækkun ferðamanna var hafin fyrir Covid og samdráttur í fjárfestingum, svo að eitthvað sé nefnt.

Ríkisstjórnin vildi ekki viðurkenna þennan veruleika, a.m.k. ekki að hann væri eitthvert vandamál. Við í Viðreisn óskuðum ítrekað eftir því að ríkisstjórnin gerði ráðstafanir einmitt vegna þessara veðurskilyrða. Við sýndum á spilin með blaðamannafundum og fjármögnuðum tillögu frá 2018 og 2019 og nú árið 2020 héldum við áfram að vara við áframhaldandi andvara- og aðgerðaleysi í ríkisfjármálum. Strax í upphafi þessa árs hvöttum við ríkisstjórnina til þess að vakna og tryggja að stoppað yrði í uppsafnaða þörf í innviðafjárfestingum og að strax yrði gripið til aðgerða til að lækka álögur á atvinnulífið, eins og að lækka hið almenna tryggingagjald. Á þetta var ekki hlustað. Síðan kom heimsfaraldurinn og veröldin okkar breyttist.

Við höfum síðan horft á ríkisstjórn í algjörum varnar- og viðbragðsgír. Ég er ekki að segja að ríkisstjórnin hefði átt að átta sig á heimsfaraldrinum fyrir fram, það er ekki hægt. En ef ríkisstjórnin hefði brugðist við vísbendingum okkar um kólnun í hagkerfinu af fullri alvöru hefði hún a.m.k. verið tilbúin með vísi að einhverju plani, vísi að því að vera tilbúin í markvissar innviðafjárfestingar. Ekkert plan var tilbúið, ekki vísir að því, nema kannski plan um einhverja blaðamannafundi.

Ríkisstjórnin tók sér langan tíma til að kynna fyrsta aðgerðapakkann. Sá fyrsti var með umfang upp á 230 milljarða, margt gott þar. En fyrst og síðast var það hlutabótaleiðin sem reyndist góð og mikilvæg og er gott að heyra að framlengja eigi hana. Önnur úrræði, verðum við þó að segja, hafa verið verulega vannýtt og langt undir áætlunum. Aðgerðapakkar ríkisstjórnarinnar voru því í besta falli verulega ofmetnir og margar aðgerðir ríkisstjórnarinnar, pólitískar aðgerðir hennar, misstu hreinlega marks þó svo aðrar hafi komið að gagni. Eina aðgerðin sem hefur farið langt umfram væntingar og áætlanir er nýting einstaklinga á séreignarsparnaði. Sem þýðir hvað? Það þýðir að heimilin í landinu eru að nýta sér sparnað sinn til þess að brúa bilið.

Ég óttast, virðulegi forseti, að of mikill tími hafi farið í að útbúa heimatilbúin úrræði sem ríkisstjórnarflokkarnir gátu möndlað um sín á milli og sameinast um en reyndust síðan ekki úrræði til að mæta þörfum atvinnulífsins og ekki að mæta stærstu ógninni sem vofir yfir okkur og það er sú staðreynd að um 30.000 manns verða hugsanlega atvinnulausir í næsta mánuði. Við eigum erfitt og þungt haust fyrir höndum. Höfum það líka í huga að ástandið er ekki til komið vegna markaðstengdra ástæðna. Ástandið er komið til vegna pólitískra ákvarðana vegna heimsfaraldurs. Viðbrögð stjórnvalda til að mæta áfallinu, eins og við sjáum á nýkynntri fjármálastefnu, eru því miður allt of lítil og of seint fram komin. Við þurfum mun framhlaðnari fjármálastefnu. Við þurfum að gera meira strax til að koma í veg fyrir að þetta tímabundna ástand — og þetta er tímabundið ástand — verði ekki langvarandi og við verðum ekki að glíma við langvarandi efnahagslegar afleiðingar þess að ríkisstjórnin brást of lítið og of seint við.

Stærsta verkefnið sem bíður okkar allra er að verja störfin og skapa störfin, að verja heimilin og verja fyrirtækin, ekki síst þau litlu og meðalstóru. Þeir sem nú eru atvinnulausir vegna þessa tímabundna ástands þurfa að fá svigrúm og hafa öryggisnet, tækifæri til þess að eiga séns næstu 12 mánuðina. Það þarf að vera fyrirsjáanleiki, þó ekki sé nema einhver, fyrir atvinnulífið og heimilin í landinu. Það er ekki nóg, með fullri virðingu, að framlengja úrræði um tvo mánuði. Við þurfum að stíga djarfari skref og þess vegna verðum við að fara í almennar aðgerðir strax, eins og að lækka tryggingagjaldið á fyrirtækin og koma hvötum til fyrirtækjanna til að ráða til sín fólk í vinnu. Þetta þarf að gera. Ekki síður þarf að fara í markvissar fjárfestingar og það strax í innviðum, mannauði og nýsköpun. Það mun kosta meira að gera minna strax. Við verðum að koma í veg fyrir að þessi reikningur verði sendur til framtíðarkynslóða. Ég kæri mig a.m.k. ekki um að gera það.

Ríkisstjórnin hefur haft 1.002 daga til að sanna að hún valdi verkefninu. Ég óttast að hún geri það ekki og ýmis teikn eru á lofti. Við sáum það fyrr í sumar að þá var ákveðið að opna landið okkar og það var ekki gert eftir einhverja greiningu eða upplýsingar og hvað þá eftir samráð; ég ætla ekki að gera ráð fyrir því frá þessari ríkisstjórn. Síðan ber hún sér á brjóst: Við getum skimað 5.000 manns. Korteri eftir að það er farið af stað lokar ríkisstjórnin landinu án þess að upplýsa fólkið okkar. Meira að segja ráðherrar í ríkisstjórn segja að undirbúningurinn hafi verið ónógur, að greiningar vanti. Ég óska ferðamálaráðherra velfarnaðar í því að fá þessar greiningar upp á yfirborðið. Við þurfum ríkisstjórn sem skapar ekki upplýsingaóreiðu í svona faraldri. Við þurfum ríkisstjórn sem sýnir okkur vissu og festu, þorir í samtalið, þorir í samráðið. Í samráði er möguleiki á samstöðu og samstaðan er dýrmætt hreyfiafl til að byggja upp samfélagið okkar til lengri og skemmri tíma.