150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

staða mála vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[11:24]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Nú hefur ríkisstjórnin á þessum fordæmalausu tímum sýnt okkur grímulaust hvað hún ætlar að gera. Metnaðurinn er ekki meiri en svo að hún ætlar stolt að verja núverandi ástand. Hvað þýðir það á mannamáli að reyna að verja núverandi ástand? Er það ekki mannúðleg stefna í miðju Covid að tryggja að fólk hafi möguleika á að framfleyta sér, borga húsnæðiskostnað, kaupa í matinn, lifa mannsæmandi lífi? Ef halda á fólki við hungurmörk á bótum hefur fólk ekki möguleika á að versla við fyrirtæki og halda þeim þannig gangandi. Það er vítahringur sem vert er að forðast. Þetta skrifar Drífa Snædal, forseti ASÍ, og krefst þess að stjórnvöld hækki atvinnuleysisbætur.

Þarna var eingöngu verið að tala um atvinnulausa. Og hvað gerir hún kröfu um að atvinnulausir hafi? Jú, um að grunnvísitölubætur verði 95% af lægstu launum á vinnumarkaði samkvæmt kjarasamningum, eða 318.250 kr. fyrir skatt. Það er engin ofrausn, en það er ömurlegt að tóra á 240.000 kr. eftir skatt. Þarna er verið að biðja um að hækka bætur í t.d. 260.000 kr. á mánuði. Það er engin ofrausn en það hjálpar. En hvað er þá hægt að segja um eldri borgara og öryrkja sem verða að sætta sig við að svelta á 220.000 kr. á mánuði eftir skatt? Sú upphæð skerðist núna vegna hækkunar á matvörum og öðrum nauðsynjum. Fólk í áhættuhópum gagnvart veirunni verður að vera inni í einangrun og fá matvöru og aðrar nauðsynjar sendar heim með tilheyrandi kostnaði, en það hefur ekki efni á því. Það verður að fara út í búð, er óvarið vegna þess að það hefur ekki efni á að kaupa grímur. Hvaða skilaboð fá eldri borgarar og veikt fólk sem er sárafátækt í boði ríkissjóðs? Jú, ríkisstjórnin ætlar að verja stöðuna, verja það að stór hópur fólks reyni að lifa af við þessar ömurlegu aðstæður. Þvílíkur metnaður. Ekki þýðir að senda fólkið á hjálparstofnanir því að það er aukningin frá 50% upp í 200%. Ekki geta allir heilsu sinnar vegna komið þangað. En hvað segir það okkur? Eymdin, fátæktin er að aukast.

Í Morgunblaðinu í gær kom fram hjá lækni á bráðamóttöku Landspítala – háskólasjúkrahúsi að aðstæður hafi aldrei verið verri og að heilbrigðiskerfið hafi veikst eftir að kórónuveiran fór að breiðast út. Ætlar ríkisstjórnin að verja það? Er metnaður hennar ekki meiri en svo að eftir að hafa lofað að styrkja heilbrigðiskerfið eftir fyrstu bylgju Covid-19 til að gera kerfið betur undirbúið til að takast á við veiruna? Er þetta metnaður? Hvað með biðlista í heilbrigðiskerfinu þar sem bið eftir bæklunaraðgerðum hefur tvöfaldast og nálgast óðfluga 1.000 manns? Þetta á auðvitað að vera óbreytt. Hvaða afleiðingar siglum við inn í? Gerum við okkur grein fyrir afleiðingum þess að halda fólki heima, hreyfingarlausu þar sem það grotnar niður? Hvaða varnir hefur þetta fólk gegn veirunni ef það fær hana? Þetta eru ömurlegar aðstæður sem verið er að bjóða fólki upp á og það er enginn metnaður til að breyta því. Eldri borgarar eru eini hópurinn sem skilinn hefur verið eftir í aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna Covid-19. Öryrkjar fengu einu sinni nokkrar krónur, sem dugðu því miður skammt því að þær voru teknar margfalt til baka með verðbólgu og gengisfalli krónunnar. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að matvara hefur stórhækkað, og við erum að tala um hækkun á matvöru um allt upp í 30–40%, sem ég hef séð. Þetta er hækkun vegna gengisins, verðbólgu. Á sama tíma hefur þetta fólk ekki fengið krónu til að taka á þessum hækkunum. Það þarf að herða sultarólina.

Eldri borgarar og öryrkjar fengu ekki leiðréttingu vegna bankahrunsins og eru þeir þeir einu sem ekki hafa fengið hana. Þessi hópur á inni hækkun upp á um 50.000 kr. á mánuði eftir skatt. Það er staðreynd. Tekjur þeirra eftir skatt ættu að vera um 270.000 kr. á mánuði og þá á eftir að leiðrétta skattprósentuna vegna þess að skattar hafa stórhækkað. Þeir hafa ekki fylgt launavísitölu, þannig að ef rétt væri gefið í dag er ég alveg sannfærður um, sama hvernig við reiknum það út, að það þyrfti enginn á Íslandi að lifa á undir 350.000 kr. á mánuði skatt- og skerðingarlaust. Og það eru engin ofrausn, ekki á nokkurn hátt. Nei, skilaboðin í bankahruninu og Covid-19 eru skýr: Þessi hópur skal að stórum hluta halda áfram að lifa og það í fátækt. Einnig skulu börn lifa áfram í sárafátækt því að það á að verja stöðu þeirra í dag, verja það að stór hópur þarf að fara til hjálparstofnana til að biðja um hvað? Jú, mat, föt, skólabækur. Er það eðlilegt? Getum við réttlætt það á einhvern hátt?

Er ekki ömurlegt að metnaðarlaust markmið þessarar ríkisstjórnar eigi áfram að bitna á þeim sem verst eru staddir? Jú, það er stór hópur þarna úti sem er í þeirri ömurlegu aðstöðu að lifa við það að vera launalaus, t.d. listamenn, þeir eru algerlega launalausir. En það er annar hópur fólks sem reynt hefur það á eigin skinni að þurfa að lifa mánuði, jafnvel ár, gjörsamlega launalaus, veikur. Þetta fólk er á almannatryggingakerfinu og hefur einhverra hluta vegna hlotnast einhver smápeningur sem síðan er tekinn, króna á móti krónu, af þeim aftur. En núna er metnaðurinn 65 aurar á móti krónu. Metnaðurinn er svo mikill hjá þessari ríkisstjórn að við samþykktum nauðug núna í haust krónu á móti krónu skerðingar aftur inn í kerfið fyrir þá sem eru með búsetuskerðingar. Hvað segir þetta okkur? Á hvaða leið erum við? Ég segi: Breytum þessu strax. Sjáum til þess að þeir sem minnst mega sín og þurfa mest á því að halda fái hjálp, en ekki allir.