150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

staða mála vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[11:55]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Hugmyndafræði íhaldsins er dauðadómur fyrir framtíðina. Það er markmið íhaldsins að gera sem minnst, breyta eins litlu og hægt er og lifa helst í fortíðinni. Hugmyndafræði íhaldsins birtist okkur ljóslifandi í stefnuleysi núverandi ríkisstjórnar. Þar er hvergi horft fram á við, einungis reynt að halda í það sem var. Samfélag gærdagsins er sú uppskrift sem við fáum frá ríkisstjórninni, ríkisstjórn sem passar upp á að þeir sem hafa og fá haldi áfram að eiga og mega. Það er passað upp á að þegar kófinu lýkur verði helst allt eins og það var svo að hægt sé að halda áfram að hjakka í sama farinu.

Meðal fyrstu viðbragða ríkisstjórnarinnar var markaðsátak í ferðaþjónustu upp á 3.000 milljónir kr. og nýsköpun til framtíðar fyrir 1.750 milljónir. Markaðsátak upp á 3 milljarða, nýsköpun til þess að koma til móts við atvinnuleysi og uppbyggingarþörf tæplega 2 milljarðar. Forgangsröðunin gæti ekki verið skýrari.

Í nýrri fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar segir að í áföllum felist tækifæri til umbóta og nýsköpunar. Í síðasta mánuði var 8,8% atvinnuleysi; rúmlega 17 þús. manns. Búist er við 6,7% atvinnuleysi á næsta ári þrátt fyrir allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Þarna eru glötuðu tækifærin, hjá fólki út um allt land sem sér fram á atvinnuleysi. Hjá unga fólkinu okkar, en tæp 18% þess eru atvinnulaus. Framtíðin okkar er að byrja sitt líf atvinnulaus í markaðsátaki. Þarna er fólk sem gæti verið að vinna í nýjum og spennandi störfum út um allt land — en nei, það þarf frekar markaðsátak til þess að ferðamennirnir komi örugglega hingað í kófinu.

Forseti. Hingað til hefur það verið óvissan sem hefur ráðið för. Óvissa um hvað er að fara að gerast næst og hvaða aðgerðir eru í gildi. Óvissa sem íhaldið skilur ekki. Svar stjórnvalda er að fresta því að leggja fram stefnu fyrir okkur út úr kófinu og rugla fólk í ríminu með misvísandi skilaboðum um hver megi vera nálægt hverjum. Má ráðherra vera nálægt vinkonum sínum á meðan enginn má faðmast í jarðarförum? Það skilur þetta enginn. Það skiptir nefnilega ekki máli hvaða stefna er sett ef enginn skilur tilganginn. Bestu aðgerðir eru gagnslausar ef þær eru ekki settar fram á skýran og vel rökstuddan hátt. Við getum ekki ætlast til þess að fólk haldi tveggja metra reglunni endalaust og við getum ekki ætlast til þess að fólk haldi þolinmæði þegar áhyggjum þess er mætt með endalausu skilningsleysi. Það er svo margt sem er óskiljanlegt, ekki bara skortur á stefnu stjórnvalda í kófinu. Hvers vegna er ekki komin ný stjórnarskrá þrátt fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu? Hvers vegna er kvótakerfið enn eins og það er? Af hverju er ekki enn búið að jafna atkvæðavægi? Af hverju er sjávarútvegsráðherra enn ráðherra? Af hverju fær fjármálaráðherra að fela skýrslu? Af hverju skiptir sannleikurinn ekki máli, virðulegi forseti? Af hverju, spyr sá sem ekki skilur. Spyr, þrátt fyrir að vita að þau sem eiga að svara svara bara með útúrsnúningi. Af hverju sættum við okkur við þetta? Af hverju sættum við okkur við íhaldssamfélagið og stjórnmálamenn sem blekkja okkur í hvert sinn sem þau opna munninn?

Forseti. Ég held að þessi spurning segi allt sem segja þarf um núverandi stjórnvöld. Af hverju var markaðsátak fyrir ferðaþjónustu í heimsfaraldri mikilvægara en nýsköpun fyrir framtíðina? Það býst enginn við framförum hjá Sjálfstæðisflokki og Framsókn. Það vita allir að það eru íhaldsflokkar. Fólk bjóst kannski við öðru frá VG. Fólk veit núna betur, því ef vilji hefði verið til þess að breyta í alvöru því sem hangir á okkur eins og akkeri, stjórnarskrá, kvótakerfi, að setja stefnu til framtíðar, hefði VG ekki farið í stjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsókn. Ríkisstjórnarsamstarfið er yfirlýsing. Yfirlýsing um íhald en ekki framtíðarsýn, eins og markaðsátak í stað nýsköpunar.