150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

staða mála vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:04]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Það hefur verið áhugavert að fylgjast með umræðunni og sérstaklega ræðum ráðherranna og stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar. Hæstv. ferðamálaráðherra sagði í ræðu sinni að liðnir tímar hefðu verið mörgum þungbærir og erfiðir og þeir yrðu það trúlega áfram. Jafnframt voru þau orð látin falla að þess vegna gengi ríkisstjórnin fumlaust og yfirvegað til allra sinna verka. Ég ætla að leyfa mér, með leyfi forseta, að vitna í viðtal sem var tekið við hæstv. ferðamálaráðherra um lokun eða verulega takmörkun á umferðinni á landamærunum. Ráðherra segir í viðtali við RÚV:

„Við vissum auðvitað að afleiðingarnar af þeim ákvörðunum yrðu mjög miklar, sérstaklega fyrir ferðaþjónustuna. Það lá fyrir.“

Síðan er haft eftir ráðherranum: „Hún segir ekki útséð hversu lengi núverandi fyrirkomulag verður gagnvart komu fólks til landsins. Enn eigi eftir að ræða hvort ráðist verður í mótvægisaðgerðir gagnvart ferðaþjónustunni sérstaklega.“

Er þetta fumlaust? Er þetta yfirvegað? Við vitum að þetta hefur stórkostlegar afleiðingar en við erum ekki byrjuð að ræða hvernig á að takast á við þær afleiðingar. Nei, þetta gengur ekki svona.

Við þurfum að hugsa djarft. Við þurfum að taka stórar ákvarðanir. Ákvarðanir ríkisstjórnarinnar eru allar því marki brenndar — allar, ég skal draga það til baka, en flestar eru þær til of stutts tíma. Það er alveg rétt að við vitum ekkert hvað er fram undan. Þess vegna þarf að gefa öllum þeim sem hægt er meiri og betri vissu um framtíðina, (Forseti hringir.) sérstaklega fólki sem er að missa lífsviðurværi sitt.