Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

staða mála vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Herra forseti. Eins og heyra mátti á orðum ráðherra ríkisstjórnarinnar telja þeir sig hafa staðið sig vel í að glíma við aðstæður vegna kórónuveirunnar. Ekki er ég sammála því. En embættismenn hafa staðið sig ágætlega.

Ríkisstjórnin var frekar sein til aðgerða í vetur og vor þegar ljóst var hvers konar vanda við horfðumst í augu við. Aðgerðirnar sem loks komu voru ekki almennar heldur sértækar og tímabundnar og nú er byrjað að framlengja þær. Ríkisstjórnin er því enn að taka ákvarðanir til skamms tíma en horfist ekki í augu við það að vandinn er til langs tíma. Ríkisstjórnin hefur reyndar notið þess að geta látið embættismenn standa í framlínunni í því að boða aðgerðir við vandanum þar til hún þurfti nýverið loksins að taka ákvörðun sem sneri að landamærum landsins. Þá ákvað ríkisstjórnin að loka landinu með svo skömmum fyrirvara að ferðamenn þurftu jafnvel að snúa við í Leifsstöð þar sem við þeim blasti lokað land.

Það að loka landinu er ákvörðun sem hægt er að rökstyðja líkt og hægt er að rökstyðja aðferðir Dana sem eru staddir á svipuðum stað og Ísland með fjölda smita en ekki lokuð landamæri. Það er hins vegar ekki hægt að samþykkja og rökstyðja að það er algjört stefnu- og forystuleysi sem einkennir aðgerðir þessarar ríkisstjórnar.

Herra forseti. Mánuðum saman hafa ráðherrar ríkisstjórnarinnar hamrað á því að við séum ekki sloppin, veiran muni sennilega blossa upp aftur. Við þurfum að gæta okkar og vera viðbúin annarri bylgju. Bara síðast í dag kom hér fram í orðum hæstv. forsætisráðherra að þessu sé hvergi nærri lokið. Milljarðar hafa runnið úr ríkissjóði vegna faraldursins, m.a. í að auglýsa landið, plástra vinnumarkaðinn, greiða bætur, öskra í kassa, algerlega stefnulaust, algerlega áætlunarlaust og algerlega án framtíðarsýnar. Og að sjálfsögðu án alls samráðs við aðra stjórnmálaflokka.

Hvers konar vinnubrögð eru það að segjast búast við að veiran blossi upp aftur en hafa svo engar áætlanir um viðbrögð? Hvers konar vinnubrögð eru það hjá ríkisstjórninni að setja hundruð milljóna í að auglýsa landið en loka því svo á einni nóttu? Hvað á það að þýða að eyðileggja orðspor landsins með stefnulausum ákvörðunum líkt og ríkisstjórnin viðhefur?

Hefur ríkisstjórnin metið hvað það mun kosta okkur að missa trúverðugleika ferðaþjónustuaðila erlendis? Hvers vegna ættu fyrirtæki í ferðaþjónustu að reyna að selja ferðir til Íslands þegar óvissan í boði ríkisstjórnarinnar er alger? Aðilar í ferðaþjónustu kvarta eðlilega yfir óvissunni en hafa fyrir vikið orðið fyrir ósanngjarnri gagnrýni vegna þess eins að kalla eftir fyrirsjáanleika fyrir starfsfólk sitt og starfsemi sína.

Vandi okkar er sá að við erum með ríkisstjórn sem veit ekki hvert hún er að fara hvað varðar viðbrögð við kórónuveirufaraldrinum frekar en flestum öðrum málum. Langtímastefnan er ekki til. Ef ríkisstjórnin vissi að veiran kæmi aftur og fyndist líklega hérlendis, hvers vegna voru engar áætlanir til? Hvers vegna voru engar áætlanir til, hæstv. forsætisráðherra? Hvernig eiga íslensk heimili og fyrirtæki að lifa af þegar ríkisstjórnin býr til óvissu í stað þess að reyna að eyða henni?

Forseti. Enn er aukið á óvissuna. Boðaðar eru framlengingar til skamms tíma á hlutabótaleiðinni, atvinnuleysisbótum o.s.frv. Þegar skammur tími er í að núgildandi aðgerðir eigi að renna út kemur loksins tilkynning um framlengingu. Hver er sýn þessarar ríkisstjórnar? Er hún bara orðagjálfrið sem kemur svo oft á blaðamannafundum sem ríkisstjórnin boðar til með í raun litlum skilaboðum? Hvar er forystan fyrir þjóðina þegar hún þarf á forystu að halda?

Ríkisstjórnin hefur hafnað öllu samstarfi við Miðflokkinn líkt og aðra stjórnarandstöðuflokka og við hljótum því að gera þá kröfu á ríkisstjórnina að lögð sé fram áætlun um hvað verði gert á næstu mánuðum og árum því þessi veira er ekkert að fara. Hún fer ekki fyrr en búið er að bólusetja við henni. Á landið að vera áfram lokað? Ef ekki, hvernig verður þá opnað, hæstv. ráðherra? Hvað þarf til að það verði opnað? Hvað verður gert ef veiran gýs svo aftur upp? Hvaða fyrirvara fá fyrirtæki og einstaklingar, komi til aðgerða o.s.frv.? Þetta þarf að undirbúa og kynna, hæstv. ráðherra.

Ríkisstjórnin þarf að hætta að skemmta sér og taka af skarið. Eru til áætlanir er varða stóraukið atvinnuleysi, vanskil heimila og fyrirtækja? Eða ætlar ríkisstjórnin að láta fjármálaöflin um að ákveða hverjir lifa og deyja?

Nú þarf að gera það sem átti að gera strax. Nú þarf að koma heimilum og fyrirtækjum í skjól, líka þeim sem eiga allt sitt undir leigusölum og koma í veg fyrir að gengið sé að eignum fólks því að það mun koma að því, verði ekkert að gert. Til að verja heimilin og fyrirtækin, gera áætlanir og móta viðbrögð við ólíkum sviðsmyndum, þora að kynna þær áætlanir og taka gagnrýni, þarf forystu.

Ef ríkisstjórnin hefur ekki það sem þarf til á hún að fara frá og kalla aðra til því að það þarf sterka forystu til að taka djarfar og stórar ákvarðanir og standa með þeim.