150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[13:18]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna. Sú endurskoðaða fjármálastefna sem hér er til umræðu er frekar á almennum nótum og ekki margt sem kemur á óvart. Ég mun koma nánar inn á það í ræðu minni. En það sem ég vildi sagt hafa og spyrja hæstv. ráðherra hér og nú er að í þessari endurskoðuðu fjármálastefnu er gert ráð fyrir að hagvöxtur taki við sér strax aftur árið 2021. Það væri áhugavert að vita á hvaða forsendum slík spá byggir. Það skiptir afar miklu máli að vita hvernig slík sviðsmynd getur breyst. Mér finnst þetta vera mjög á almennum nótum og hefði mátt fara dýpra í hlutina hvað þetta varðar.

Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra út í það að verið er að spá hagvexti árin 2021 og 2022, en að sama skapi munu skuldir ríkissjóðs halda áfram að aukast töluvert mikið og eru mjög háar tölur nefndar. (Forseti hringir.) En í stefnunni kemur ekki fram af hverju skuldaaukningin á að vera svona gífurlega mikil í árferði þegar hagvöxtur er orðinn jákvæður á ný. Ef hæstv. ráðherra gæti farið yfir það.