150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[13:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er spurt út í líkurnar á hagvexti á næsta ári. Við byggjum á uppfærðri spá Hagstofunnar um ágætishagvöxt á næsta ári, þó ekki nægjanlegan ef horft er til þess hversu mikill samdrátturinn er á þessu ári. Segja má að við séum að hverfa u.þ.b. aftur til ársins 2016 í landsframleiðslu með þeim samdrætti sem nú er að verða. En allar spár benda til þess að borið saman við árið 2020 verði hagvöxtur á árinu 2021. Það eru auðvitað ýmsir þættir sem þar koma við sögu, m.a. er gert ráð fyrir því að ferðaþjónustan taki aðeins við sér og að óvissunni taki smám saman að létta og að það muni laða fram eitthvað aukna fjárfestingu, borið saman við þetta ár þar sem fjárfesting einkageirans hefur því miður fallið mjög hratt. Á móti vegur aukin fjárfesting hins opinbera. Við munum enn auka í fjárfestingu á næsta ári þannig að þarna eru að verkum ólíkir þættir. En þau atriði sem snúa að hagvextinum eru algerir lykilþættir í því að við getum unnið okkur aftur í átt að sjálfbærni opinberra fjármála.