150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[13:21]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Mér fannst hann ekki koma nægilega vel inn á það hvers vegna gert er ráð fyrir þessari miklu skuldaaukningu þegar við horfum fram á að það verði hagvöxtur, eins og við vonum sannarlega að verði. Ég vil taka undir það sem hæstv. ráðherra sagði áðan í ræðu sinni, vonandi mun hin dökka sviðsmynd, sem sett er fram í stefnunni, ekki rætast því að það gæti haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir okkur. En vissulega er mikil óvissa fram undan.

Það sem mér finnst vera óskýrt í þessari stefnu er hvers vegna skuldaaukningin er þetta mikil. Er það vegna þess að stefnt er að auknum fjárfestingum? Þá ætti að draga úr henni, svona hagfræðilega séð, þegar hagvöxtur fer upp á ný, sem gert er ráð fyrir og við vonum að gangi eftir. Ef hæstv. ráðherra gæti skýrt þetta nánar væri það til bóta.