150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[13:24]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum sagt mjög skýrt að ný útgjöld sem tengjast Covid-faraldrinum verði fjármögnuð. Og við höfum sýnt það í verki strax á þessu ári að við höfum útvegað fjármagn til skóla, til heilbrigðisstofnana, í íþróttir, í listir, í nýsköpun, í rannsóknir. Allt höfum við fjármagnað með sérstökum fjárveitingum á þessu ári vegna þess að við sjáum að áhrifin birtast þar sem hv. þingmaður vill beina sjónum sínum.

Varðandi almennu aðhaldskröfuna. Það er engin sérstök aðhaldskrafa á þær opinberu stofnanir sem hér eru tíndar til, þ.e. skóla og heilbrigðisstofnanir, heldur erum við einmitt með lægri almenna aðhaldskröfu á þá þætti. Ég ætla bara að segja eitt sem er gríðarlega mikilvægt að haldið verði á lofti á þessu ári og á komandi árum: Við höfum allt að vinna. Við verðum einfaldlega að tryggja að alls staðar í ríkisrekstrinum, þar sem við erum að fjármagna rekstur með nýjum lántökum á hverjum degi, sé verið að hámarka nýtingu fjármunanna. Almenn aðhaldskrafa sem gerir kröfu um aðeins meira fyrir sama fjármagn er ein leið til að tryggja að það gangi eftir.