150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[13:26]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það skýtur skökku við þegar heilbrigðisstofnanir eru þandar til hins ýtrasta, að ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar setji sérstaka aðhaldskröfu á sömu stofnanir. Það er gert. Ég veit að hún er lægri, en hins vegar eru samkvæmt ríkjandi fjármálaáætlun stofnanir sem ekki hafa aðhaldskröfu, t.d. dómstólar. Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Kemur ekki til greina að sleppa þessari aðhaldskröfu t.d. gagnvart sjúkrahúsum og skólum, alveg eins og það er ekki aðhaldskrafa á dómstóla? Það er ekki verið að brjóta neitt prinsipp.

Þetta er sérkennileg pólitík að mínu mati, í ljósi þeirrar stöðu sem við búum við, í ljósi þess álags sem skólar, sjúkrahús og heilsugæsla búa við út af þessari einstöku stöðu. Þarf ríkisstjórnin virkilega að klípa af þessum lykilstofnunum í miðjum heimsfaraldri? Getur ráðherra svarað mér í seinna andsvari að hann sé tilbúinn a.m.k. að skoða það að taka sérstöku aðhaldskröfuna af þessu lykilstofnunum? Ég fer ekki fram á meira. Það skiptir máli því að uppsafnað aðhald gagnvart öllum stofnunum, eins og ég gat um áðan, er um 60 milljarðar, sem er meira fjármagn en það sem við setjum í samgöngumál. Þetta er tvöfalt meira fjármagn en það sem allir framhaldsskólar Íslands kosta. Þetta eru ekki litlir fjármunir. Þetta skiptir máli fyrir sjúkrahúsin, heilsugæsluna og skólana.