150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[13:27]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hygg að þegar hv. þingmaður segir að uppsöfnuð aðhaldskrafa sé 60 milljarðar sé hann að leggja saman öll ár áætlunartímabilsins. Það er auðvitað ein leið til að reyna að magna töluna upp, að taka mörg ár og margfalda þetta allt og leggja það saman. En við skulum bara taka dæmi af því hvað svona aðhaldskrafa þýðir fyrir lykilstofnanir, segjum fyrir Landspítalann. Segjum að reksturinn með ríkisframlagi, sértekjum og öllu saman liggi í kringum 70 milljarða; 0,5% aðhaldskrafa á 70 milljarða ríkisframlag, 0,5% eru 350 millj. kr. Það eru 350 milljónirnar sem viðkomandi þingmaður er í raun og veru að tala um. Á sama tíma erum við að leggja til milljarða til að fást við afleiðingar faraldursins.

Ég ætla bara að segja að þegar ein ríkisstofnun veltir um 70 milljörðum er ekki óeðlileg krafa, þegar við verðum öll að leggjast á eitt við að nýta hverja einustu krónu eins vel og hægt er, að reyna að finna leiðir til að spara slíkar fjárhæðir. Það er gegn loforði um að allt sem leggst nýtt á viðkomandi stofnanir vegna faraldursins og er sérstaklega Covid-tengt, eins og við orðum það í almennri umræðu, verði fjármagnað.