150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[13:30]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda því fram að íslenska krónan sé nokkurn veginn að gera það sem við viljum að hún geri við þær ótrúlegu breytingar sem hafa orðið í efnahagshorfum, þ.e. að hún gefi eitthvað eftir. Það sem er ánægjulegt eftir lækkun íslensku krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum núna er að við sjáum ekki alvöru verðbólguskot. Að því marki sem verðbólgan hefur hækkað og verðbólguvæntingar hafa farið upp telja menn að það sé til mjög skamms tíma.

Hér er spurt hvort ekkert eigi að gera fyrir tilfærslukerfin. Við erum að verja tilfærslukerfin eftir gríðarlega mikla aukningu í þau á undanförnum árum. Þeir sem finna mest fyrir ástandinu í dag eru ekki þeir sem treysta á tilfærslukerfin fyrir framfærslu sinni. Það eru ekki opinberir starfsmenn, það er fólkið sem starfar í einkageiranum. Það er þar sem ég held að hjörtu fleira fólks mættu slá (Forseti hringir.) hér í þingsal, hjá fólkinu sem hefur tapað allri framfærslu sinni vegna þess að það hefur tapað starfinu.