150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[13:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að ég hafi komið mjög skýrt inn á það í framsögu minni og ég tel að það sé reyndar líka mjög skýrt í greinargerð með stefnunni að markmið okkar er að beita ríkisfjármálunum af fullu afli á þeim tíma sem samdrátturinn í hagkerfinu er mestur. Rannsóknir hafa sýnt að þá er rétti tíminn til að gera það og þetta eru reyndar, á ákveðinn hátt, einu skilyrðin þar sem hægt er að réttlæta mikla lántöku til að örva hagkerfið og koma í veg fyrir að samdrátturinn verði meiri. Með öðrum orðum væri heimskulegt að standa í ósjálfbærum rekstri hins opinbera á tímum mikils hagvaxtarskeiðs. Áhrifin birtast í mun meiri landsframleiðslu, betra atvinnustigi, jákvæðari skuldahlutföllum og birtast þegar til lengri tíma er litið almennt í betri lífsgæðum.

Þegar spurt er hvernig hagspáin hefði litið út án aðgerða ríkisstjórnarinnar þá verða menn að (Forseti hringir.) eiga það samtal við þá sem gera spárnar. Og það er eitt af því sem fjármálaráð hefur verið að kalla eftir, að það sé ákveðið samtal, að menn séu að kallast á (Forseti hringir.) í áætlanagerðinni við hagspáraðila þannig að hagspáraðilar geti tekið tillit til aðgerða stjórnvalda þegar þeir eru að gera sínar áætlanir og við höfum lagt okkur fram um að (Forseti hringir.) deila upplýsingum í sumar þannig að það geti birst með sem skýrustum hætti.