150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[13:37]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég geri mér grein fyrir því og þess vegna spyr ég, því ég sé áhrif peningastefnunnar í þjóðhagsspá Hagstofu Íslands en ég sé ekki hvaða áhrif þessi fjármálastefna á að hafa á atvinnuleysið. Sagt er að hún auki atvinnustig o.s.frv. en hvert er markmiðið? Er markmiðið þessi 6,7% eins og þau eru sett fram í þjóðhagsspánni eða er það minna atvinnuleysi? Og ef svo er, hvert er markmiðið? Það er það sem ég er að spyrja um þannig að hæstv. fjármálaráðherra mætti endilega svara því: Hvert er viðmiðið um atvinnustig sem er ætlað að ná með þessum skiljanlegu, auknu útgjöldum? Ég tek alveg undir þau orð hæstv. fjármálaráðherra en atvinnustigið er önnur birtingarmynd verðbólgu. Ef efnahagsvandinn birtist ekki í verðbólgu þá getur hann birst í atvinnuleysi. Það er það sem er verið að spá hérna þannig að (Forseti hringir.) hvernig lagar þessi fjármálastefna það vandamál?