150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[13:40]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar til að taka undir það sem segir í fjármálastefnunni, því að maður getur nú eiginlega bara komið við á einum stað hér, með leyfi forseta:

„Í áföllum felast tækifæri til umbóta og nýsköpunar.“ Ég gæti ekki verið meira sammála þessu.

Ég vil inna hæstv. fjármálaráðherra eftir því, því að þess sér svo sem ekki beinlínis stað í fjármálastefnunni, enda kannski ekki beinlínis til þess ætlast að það sé tekið fram berum orðum, en þetta er samt sem áður tekið upp í textanum: Mun hæstv. fjármálaráðherra beita sér fyrir því með ríkisstjórn sinni að hraða og auka við og lengja í þeim úrræðum sem þegar eru fyrir hendi til að fjármagna nýsköpun í landinu? Það er mikilvægt að gera það bæði til meðallangs tíma en ekki síður til langs tíma. Ég geri mér grein fyrir því. Nýsköpun er langhlaup. Mér finnst svolítið stutt í öllum aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem varða þessa þætti. Mun hæstv. ráðherra beita sér í þessu máli?