150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[13:42]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég náði því nú samt ekki alveg hvort hæstv. ráðherra var fyrst og fremst að tala um það sem þegar hefur verið ákveðið eða hvort nýrra viðbótarákvarðana er að vænta. En ég vil ítreka að nýsköpun er langhlaup og á þessum tímum þegar við stöndum frammi fyrir stórkostlegri efnahagskreppu og miklum samdrætti í atvinnulífinu verðum við að horfa til langs tíma. Við verðum að horfa til langs tíma. Langur tími í nýsköpun er ekki til loka ársins 2022. Það þarf að fara miklu lengra og skapa vissu. Það er það sem verið er að kalla eftir, ekki það sem búið er að gera, ekki til skamms tíma heldur til lengri tíma. Það held ég að sé gríðarlega mikilvægt að stjórnvöld skilji. Það er gríðarlega mikilvægt að þau skilji að þetta þarf að vera til langs tíma. Þetta er ekki spretthlaup.