150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[14:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins varðandi lagalegu umgjörðina. Ég lét þess getið í framsögu minni að það biði okkar núna í haust að taka umræðu um það hvernig við getum séð til þess að hún tryggi þann nauðsynlega sveigjanleika sem við þurfum til þess að geta beitt hagstjórninni með skynsamlegum hætti á næstu árum og stuðlað þannig að efnahagslegum stöðugleika. Þannig að ég er sammála og held að það yrði of harkalegt eftir tvö ár að fara beint í að uppfylla fjármálareglurnar. En það er umræða sem ég held að við verðum að taka að öðru leyti síðar.

Varðandi tilfærslukerfin erum við bara mjög heiðarleg með það að hagkerfið er í frjálsu falli og þetta eru ekki aðstæður þar sem við getum sagt: Nú drýpur smjör af hverju strái. Nú getum við deilt út gæðunum sem streyma til okkar úr öllum árfarvegum. (LE: Þú sagðir það ekki heldur þá.) En við gerðum það nefnilega þá vegna þess að þegar við horfum til baka á almannatryggingarnar og skoðum bara ellilífeyrinn einan og sér hefur hann hækkað yfir 100% á síðustu 7–10 árum, 100% aukning. Þegar ég kom í fjármálaráðuneytið vorum við að greiða um tæpa 40 milljarða út í ellilífeyri. Talan er komin yfir 80 milljarða og þetta er að gerast á lágverðbólgutímum.

Skoðið tekjusöguna, skoðið kaupmátt ráðstöfunartekna þessara hópa sem við erum að ræða hér, skoðið kaupmátt bóta örorkuþega og lífeyrisþega. Við skiluðum góðærinu þangað og þegar við skoðum þetta aldursgreint sjáum við að eldri borgarar eru sá hópur Íslendinga sem hefur bætt kaupmátt sinn hvað mest á undanförnum árum. Hvað mest. Þar komu ekki bara tilfærslukerfin til sögunnar heldur skilar það sér auðvitað líka að fólk er að fá aukinn lífeyri. En þessi aukni lífeyrir sem fólk hafði lagt fyrir er ekki að hverfa allur í skerðingum í kerfunum heldur höfum við verið að bæta í kerfin. Og varðandi krónu á móti krónu þá erum við ekki lengur (Forseti hringir.) með það fyrirbæri eftir nýjustu breytingar. Við höfum dregið úr þessari skerðingu sem upphaflega var hugsuð sem viðbót, sem eins konar uppbót fyrir þá sem höfðu minnst, og var kynnt til sögunnar af formanni Samfylkingarinnar á sínum tíma. En við (Forseti hringir.) eigum enn eftir að ljúka umbótum á bótakerfi örorkulífeyrisþega.