150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[14:21]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Fjármálastefna er áhugavert plagg. Það er fullt af áhugaverðum orðum í henni en minna um það sem ég myndi vilja kalla markmið. Vissulega er settur fram ákveðinn rammi, lágmark eða hámark eftir því sem við á um skuldir, heildarafkomu og þess háttar, en það er ekki vel tilgreint hverjar eigi að vera afleiðingar og áhrif þeirra markmiða. Ef markmiðið er, eins og er sagt í fjármálastefnunni, að koma með sterkan efnahag úr þessari efnahagslægð, hvernig komum við út úr henni með tilliti til t.d. verðbólgu eða atvinnulífsins? Þetta rakti ég í andsvari við fjármálaráðherra áðan.

Hagspáin gerir ráð fyrir óbreyttri verðbólgu þrátt fyrir að gengisvísitalan sé að breytast gríðarlega. Það er 9,1% frávik, punktar í rauninni, frá því sem gert var ráð fyrir. Gengisvísitalan er að breytast um 9,3% en átti bara að breytast um 0,2% miðað við áætlanir árið 2020. Þrátt fyrir að gengið sé að veikjast sjáum við ekki verðbólguskot. Það er mjög áhugavert. Það má giska á að það sé vegna aðgerða Seðlabankans um lækkun vaxta og svoleiðis, að peningastefnan virki hvað það varðar.

Hins vegar, þegar það eru veikleikar í efnahagskerfinu, er hægt að hafa verðbólgumarkmið og veikleikar geta brotist fram á öðrum stöðum, t.d. í atvinnuleysi, í staðinn fyrir verðbólgu. Við virðumst vera að sjá það, atvinnuleysi er komið á fleygiferð vegna ástandsins sem er í gangi og er alveg skiljanlegt en þegar við horfum til framtíðar í þjóðhagsspánni eins og hún er sett fram sjáum við að á næsta ári, þegar hagvöxtur á að vera kominn af stað á ný og við komin út úr þeirri kreppu sem við erum í núna og komin af stað aftur, er spáð 6,7% atvinnuleysi. Þannig að peningastefnan, stefna stjórnvalda um verðbólgumarkmið, helst í þjóðhagsspánni en það virðist ekki vera stefna um að halda atvinnuleysi í lágmarki. Atvinnuleysi er jafn skaðlegt þegar á heildina er litið, fellur á mismunandi hópa, og hækkun á verðbólgu.

Mér finnst áhugavert þegar stjórnvöld koma hingað og leggja fram markmið sín um það hvernig við eigum að koma rosalega öflug út úr þessu vegna fjármálastefnunnar að áhrifin af þeim markmiðum á allar þær greiningar sem Hagstofan gerir eru 6,7% atvinnuleysi á næsta ári. Markmiðið er ekki skýrara en svo að það er bara sagt að minnka eigi atvinnuleysi. Það er mjög óljóst hversu mikið. Það er ekkert ólíklegt, ef miðað er við svörtustu spár eins og er talað um í greinargerðinni, að það náist betri niðurstaða en 6,7%. Það væri frábært. En hversu mikið af því er vegna stefnu stjórnvalda? Hversu mörgum nýjum störfum skilar stefna stjórnvalda? Sérstaklega þegar við horfum til hversu mikill skortur er á áherslu á nýsköpun miðað við önnur útgjöld, það er tilfinnanlega mikill skortur. Við sáum það í umsögnum ýmissa aðila þegar við vorum að fjalla um fjáraukana að það var meira svigrúm fyrir fjármuni og tækifæri til nýsköpunar en síðan var nýtt. Það var svigrúm í Tækniþróunarsjóði, í skólunum, hjá Rannís og hjá einkageiranum líka í raun, út frá ýmsum forsendum.

Ég sakna þessa í fjármálastefnunni, að fjallað sé betur um markmiðin og á þeim forsendum sem gefnar eru í lögum um opinber fjármál um að fjalla eigi um grunngildin sem liggja þar undir, um festu, gagnsæi, stöðugleika, sjálfbærni og varfærni. Það segir meira að segja hér í greinargerð á bls. 19, með leyfi forseta:

„Framlagning stefnumótunar og fyrirætlana stjórnvalda til meðallangs og lengri tíma er sjaldan jafn mikilvæg og á tímum þeirrar óvissu sem nú er uppi. Framlagning fjármálastefnu nú og fjármálaáætlunar síðar í haust felur í sér gagnsæi …“

Í ljósi þess ef það á að sýna gagnsæi, festu, sjálfbærni, varfærni og stöðugleika í stefnu stjórnvalda, og hægt er að ná því markmiði með framlagningu fjármálastefnu og fjármálaáætlunar, þá er mjög undarlegt að stjórnvöld fresti þeirri framlagningu. Hún átti að koma fram í vor en kemur fram núna nokkrum mánuðum seinna. Á meðan hefur óvissan enn verið í gangi. Tilgangur fjármálastefnunnar er að setja grundvallarmarkmið um t.d. verðbólgu, atvinnuleysi og skuldastöðu ríkisins og hins opinbera í heild og þar fram eftir götunum, með því að útskýra hvernig fjármálastefnan hefur áhrif á þær stærðir. Það er ekki gert. Ef þau rök væru lögð fram næðist gagnsæið sem talað er um í greinargerð fjármálastefnunnar. Vandamálið er að það að leggja einfaldlega fram fjármálastefnu uppfyllir ekki gagnsæiskröfuna sjálfkrafa nema þau rök sé þar að finna. Þau er ekki þar að finna. Þar af leiðandi, eins og við höfum upplifað þó nokkuð oft síðan þetta kóf hófst, hefur gagnsæisvinkillinn, sem er grunngildi opinberra fjármála, verið algerlega hunsaður. Ég held að ég geti talið á fingrum annarrar handar hversu oft við höfum fengið einhverjar upplýsingar frá stjórnvöldum fyrir utan þegar sagt er: Æ, við verðum að leggja fram nýjan fjárauka, þá verðum við að segja eitthvert smáræði um það hvernig mál ganga.

Þingið fær engar reglulegar upplýsingar um stöðu mála. Það gerði það að verkum að þegar hlutabótaleiðin var samþykkt var gert ráð fyrir að hún kostaði tæpan milljarð. Vissulega voru gerðar breytingar í þinginu sem voru til kostnaðarauka. Það var ekki metið hver sá kostnaðarauki yrði, en matið frá ríkisstjórninni var tæpur milljarður. Breytingar sem voru gerðar voru nokkuð kostnaðarmiklar, ekkert rosalega umfram þær áætlanir sem voru gerðar upphaflega í frumvarpinu, en reyndin varð tugmargföldun á þeim kostnaði. Við fengum ekkert að vita um það hver þróunin á þessum útgjöldum væri fyrr en allt í einu þegar fjáraukalagafrumvarp kom inn í þingið um að það væri búið að eyða um 25 milljörðum, ekki þessum 1 milljarði heldur 20 og eitthvað milljörðum, næstum því 30, ef ekki meira ef aðrir hlutir eru teknir til.

Það virðist vera misskilningur um það hvernig eigi að nálgast opinber fjármál, hvernig eigi að nálgast þær fjárheimildir sem Alþingi, fjárveitingavaldið, veitir framkvæmdarvaldinu. Alþingi á ekki að geta sagt: Allt í lagi, hérna eru lög og við búumst við því að þau kosti tæpan milljarð. Farið síðan og eyðið 25 milljörðum, 35 milljörðum eða hvað það er, nokkrum tugum milljarða. Komið síðan og látið okkur vita þegar þið eruð búin að eyða tugum fleiri milljörðum en við bjuggumst við að þið mynduð eyða.

Það getur vel verið að hlutabótaleiðin hafi verið mjög góð fjárfesting fyrir alla þessa fjármuni. Við fengum bara ekki að taka þá ákvörðun. Samt er það okkar að taka þá ákvörðun. Það er okkar að fá þann rökstuðning að þessi ríkisútgjöld séu betri en öll önnur ríkisútgjöld til að ná tilætluðum árangri, t.d. varðandi atvinnuleysi og fjölbreyttari störf. Við fengum ekki það tækifæri.

Þetta er áhugavert plagg en það er gjörsamlega gagnslaust í vinnu okkar hérna á þingi til að meta hlutverk okkar um eftirlit með framkvæmd fjárlaga.