150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[14:38]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er nú ekki hissa á því að klukkan hafi frosið, ég fraus sjálfur. Þetta var í senn fræðilegt og athyglisvert en um leið yfirgripsmikið og margar aðrar breytur sem koma inn í þetta. Hv. þingmaður ræðir mikið um lagaumgjörð um opinber fjármál, og gerir það oft og tíðum mjög vel og vísar í grunngildi. Eitt af hinum mikilvægu grunngildum er stöðugleiki. Við ræðum oft í pólitíkinni um það hugtak. Stöðugleiki er fyrir margra hluta sakir mjög mikilvægur.

Markmiðið sem hv. þingmaður hefur, ég greip það þó úr þessari útskýringu, er að jafna hagsveiflur. Þá eigum við betra með að taka ákvarðanir. Ég var að fiska eftir því með spurningu minni og umræðu um skiptin á milli verðbólgu og atvinnuleysis að það kunni að vera að árangur í hagstjórn — nú höfum við kannski ekki nægilega langa sögu um ramma opinberra fjármála til að geta fullyrt nokkuð um það, en ég held að okkur sé að takast betur til í samspili peningastefnu og ríkisfjármála að því leyti. Við höfum ekki jafn ör skipti með krónunni og öðrum breytum, (Forseti hringir.) þegar skammtímasamdráttur verður og atvinnuleysi sem því fylgir, að við veltum því út í verðlagið, (Forseti hringir.) að við gengisfellum okkur út úr slíkum vandræðum. (Forseti hringir.) Hér glymur bjallan. Við erum komin út í þannig vangaveltur að ég gæti staðið hér mun lengur. En ég þakka fyrir svarið.