150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[15:14]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Er það nóg? Þannig spyr formaður fjárlaganefndar um óvissusvigrúmið. Ég spyr á móti: Nóg fyrir hvað? Ekki er hægt að setja endalaust svigrúm til að áætlanir standist, segir formaður fjárlaganefndar einnig. Svigrúm til að gera hvað? Hvaða áætlanir er hæstv. formaður fjárlaganefndar eiginlega að tala um?

Ég spurði fjármálaráðherra áðan að því hvert væri ætlað atvinnuleysi vegna þessarar fjármálastefnu miðað við hagspá þar sem gert er ráð fyrir 6,7% atvinnuleysi á næsta ári. Hversu miklu betra verður ástandið út af þessari fjármálastefnu? Hæstv. fjármálaráðherra svaraði því til að ekki frekar en þegar menn fjalla um dauðsföll í umferðinni og ætli að draga úr þeim, ná þeim t.d. úr 50 niður í 25, sé stefnan ekki sú að 25 manns deyi í umferðinni næsta árið. En það kemur einmitt fram í gildandi fjármálaáætlun að draga eigi úr dauðsföllum og alvarlegum slysum um 5% á hverja 100.000 íbúa. Af hverju er það þá ekki gert varðandi atvinnuleysi?

Stækka kökuna, segir formaður fjárlaganefndar. Stundum getum við gert ýmislegt sem bætir samfélagið án þess að stækka kökuna. Ef við búum t.d. til ljósaperu sem endist að eilífu lækkar hagvöxtur, það er bara þannig. En það er samt betra samfélag og það kemur inn á velsældarsamfélagið sem hefur verið talað um af forsætisráðherra. Hvar er það að finna í þessari fjármálastefnu?