150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[15:21]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar og ég biðst afsökunar á því að hafa farið fram yfir tíma í fyrra svari. Ég held að við hv. þingmaður séum að ræða sama hlutinn og séum kannski meira sammála en birtist í samtali okkar. Bara til að einfalda þetta þá erum við með framleiðsluþætti sem eru okkur svo dýrmætir, náttúruauðlindir, vinnuaflið sem við erum fyrst og fremst að tala um, og svo erum við auðvitað með fjármagnið. Það sem gerist þegar samdráttur verður og verðmætasköpunin fer svona hratt niður, og það er það sem menn eru að tala um, er að kakan minnkar. Framleiðslutapið felst í því að við erum ekki að nýta mannauðinn. Við viljum því fara hratt til baka. Einfaldasta svarið væri auðvitað það að ná tökum á veirunni, opna landið og ferðaþjónustuna kviss bang búmm í gang. (Gripið fram í.) Það er það sem ég er að segja, af því að við erum að fara þaðan. Við nýtum ekki vinnuaflið öðruvísi en að hafa vinnu og skapa verðmæti þannig að þetta hangir saman, þetta er hringrás. Þess vegna tölum við um efnahagshringrás.

Við þurfum hagvöxt til að vinna okkur út úr þessu. Við sjáum það strax á ríkissjóði hvert tekjufallið verður. (Gripið fram í.) Þess vegna erum við að skoða skuldaþróun og afkomumarkmið. Við ætlum að sætta okkur við hallann á næstu árum. Spurningin er bara hve lengi og hvert óvissusvigrúmið þarf að vera til að við getum raunverulega tekist á við þetta, ef sviðsmyndirnar reynast dekkri en við erum að vinna með. Þær eru líka settar hér inn því að ég veit að hv. þingmaður hefur gagnrýnt skort á sviðsmyndum. Það er til bóta hér að verið er að vinna með ítrun spáa, eins og fjármálaráð hefur oft bent á. Það er verið að reyna að taka vinnuna sem er í þessu plaggi (Forseti hringir.) inn í hagspárnar og svo áfram. Það er verið að vinna faglegar en oft áður og maður sér það í þessari vinnu. Ég bið afsökunar, virðulegur forseti, ég myndi gjarnan vilja ræða þetta enn og frekar.