150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[15:45]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni, formanni Samfylkingarinnar, prýðisræðu. Það sem kveikti kannski í mér var það að hann fór að tala um fótboltalið, ég skal ekki segja. Það var ýmislegt í ræðu hv. þingmanns sem gaf tilefni til að ræða og ég get ekki farið yfir allt það í stuttu andsvari. En svo sanngirni sé gætt og ef við tölum um ríkisstjórnina þá erum við í einu og öllu að tala um leikhlé og að breyta reglum. Þegar takturinn er ekki góður í fótboltaliði hefur maður oft sem knattspyrnuþjálfari vonast til þess að þetta væri eins og í körfubolta, að maður gæti bara kallað á leikhlé og farið aðeins yfir stöðuna og endurmetið planið sem ekki var rétt eða nægilega vel upp lagt af þjálfaranum. Það er þannig í því tilviki sem við ræðum hér. Við styðjumst við 10. gr. laga um opinber fjármál, við erum með forsendubrest og hrikalegar kringumstæður þar sem við erum að kljást við á skömmum tíma mikið tekjufall og samdrátt. Um slík tilvik og endurskoðun stefnu segir — og nú ætla ég bara að lesa beint upp úr 10. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, með leyfi forseta:

„Við slík tilvik er heimilt að víkja tímabundið eða í allt að þrjú ár frá skilyrðum 7. gr. Endurskoðuð fjármálastefna skal ná til a.m.k. fimm ára.“

Við erum því hér í raun og veru að fylgja þeim reglum, enda væri óráðlegt og óskynsamlegt að endurskoða ekki stefnuna og víkja frá þessum skilyrðum meðan við erum að stilla af rammann til að geta tekist á við grundvallarverkefni um að verja störf og skapa störf.