150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[15:49]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Hann svaraði þessu ágætlega, eins og ég bjóst við. Mér fannst hann hins vegar gefa það til kynna í ræðu sinni að við værum jafnvel að reyna að sveigja reglurnar, sem við erum alls ekki gera. Ég vildi bara koma því að í andsvari. En hv. þingmaður útskýrði það síðan mjög vel hvað hann átti við. Ég get hins vegar tekið dæmi um það, fyrst hv. þingmaður dregur mig inn í fótboltann, ég get eiginlega ekki glatað því tækifæri. Ég man eftir einu atviki þar sem við vorum að spila í 35 stiga hita og þá var búið að finna upp fyrirbærið vatnspásu, það þótti ráðlegt þar sem leikmenn þyrftu að vökva sig. Þá hugsaði ég: Nei, við megum helst ekki að fá þessa pásu akkúrat núna vegna þess að takturinn er svo góður inni á vellinum. Og það sem gerðist var að við töpuðum taktinum og fengum á okkur mark í kjölfarið. Svona vill þetta vera öfugsnúið oft og tíðum.

Ég þakka svarið. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við mörkum þennan ramma hér. Út frá því sem hv. þingmaður ræddi um, hvort einum flokki sé treystandi fyrir stefnu, þá er það auðvitað ekki svo. Eins og stjórnskipulag okkar er er mjög mikilvægt að öll þessi umræða fari í gegnum þingið og að öll fjárlög séu lögð fyrir þingið. Ég held hins vegar að við séum algjörlega sammála um það í þessari vegferð að við verðum að marka rammann og sætta okkur við að reka ríkissjóð með halla til að verja velferðarkerfið, heilbrigðiskerfið, koma með mótvægisaðgerðir við þessar áhrif og afleiðingar af Covid og horfa síðan til langs tíma þegar við hugum að grunngildinu sjálfbærni.