150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[16:03]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu, en þessi hv. þingmaður og annar hv. þingmaður, Kolbeinn Óttarsson Proppé, voru nú einu sinni pólitískt skyldir. Þeir hafa báðir rætt um að það sé kostur að aðgerðirnar sem gripið er til núna lendi á ríkissjóði en ekki á almenningi. Mér finnast þetta röng skilaboð vegna þess að ég minni á góð orð hv. formanns fjárlaganefndar sem sagði á þingfundi í vor: Við erum öll ríkissjóður. Og ríkissjóður er jú sameiginlegur sparibaukur okkar allra, ekki satt? Þannig að það sem við drögum á ríkissjóð nú meðan verstu bylgjurnar ganga yfir, þurfum við á einhverjum tíma að endurgreiða, bæði almenningur og fyrirtæki. Þess vegna finnst mér rangt að menn segi: Þetta lendir á ekki almenningi heldur á ríkissjóði, vegna þess að mér finnst að þar séu menn að senda almenningi röng skilaboð um að þetta fari nú allt saman fram hjá almenningi vegna þess að ríkissjóður taki á sig skellinn.

Ég segi aftur: Við erum öll ríkissjóður. Vonandi gengur þetta ástand yfir núna á næstu misserum þannig að við fáum vind í seglin á ný og getum tekið til endurreisnar. Það kemur kannski fram betur seinna þegar við ræðum þetta núna í október að ríkisstjórnin er því miður uppfull af smáskammtalækningum, samanber það að framlengja núna hlutabætur um tvo mánuði. Það getur ekki verið neinum hollt sem bíður að vera framlengdur í tvo mánuði í staðinn fyrir að sjá lengra fram á veginn. En mig langaði fyrst til að fá viðbrögð hv. þingmanns á því sem ég sagði áðan, að þetta lendi á ríkissjóði en ekki almenningi.