150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[16:05]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður sagði u.þ.b. þetta: Það sem við drögum úr ríkissjóði núna þurfum við endurgreiða síðar. Það er náttúrlega ekki rétt. Svona virka opinber fjármál ekki. Mikið af þeim útgjöldum sem ríkissjóður ræðst í núna er til að koma í veg fyrir aukin útgjöld í framtíðinni. Með því að leggja pening í að koma í veg fyrir langtímaatvinnuleysi 2020 komum við í veg fyrir heilbrigðisafleiðingar og félagslegar afleiðingar langtímaatvinnuleysis árið 2030 og 2040. Það sem við leggjum inn í ríkissjóð skilar okkur betra samfélagi í framtíðinni. Þannig að þetta einfalda reikningsdæmi hv. þingmanns finnst mér bara ekki eiga við. Það er ekki hagstjórnarlega tækt að stilla ríkissjóði svona upp. Þar að auki er ríkissjóður þeim eiginleikum gæddur að vera okkar allra þannig að hann getur jafnað tækifæri og líka jafnað áhættu okkar gagnvart áföllum sem einstaklingum, þannig að ríkissjóður er að taka á sig högg sem myndi kannski fara af of miklu afli á einstaklingana sem standa í skjóli hans. — Nei, þetta er eitthvað sem ég myndi ekki taka undir.