150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

markmið í baráttunni við Covid.

[13:34]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Auðvitað er það svo, eins og fram kom í ágætum umræðum hér í gær, að markmið stjórnvalda hafa tekið breytingum eftir því sem við öðlumst meiri þekkingu á faraldrinum og veirunni sem honum veldur. En leiðarljósin hafa frá upphafi verið skýr og ég held að hv. þingmaður eigi ekki að gera lítið úr því að leiðarljósin hafa frá upphafi verið þau að forgangsraða heilbrigði þjóðarinnar, verja líf og heilsu fólks og að lágmarka samfélagsleg og efnahagsleg áhrif. Það er auðvitað það sem Alþingi vann mjög ötullega að á vorþingi, þ.e. þessu síðara leiðarljósi, að lágmarka samfélagsleg og efnahagsleg áhrif, m.a. með þeim margháttuðu aðgerðum sem gripið var til, til að styðja við atvinnulíf og almenning í landinu, og ég þarf ekki að rifja það upp.

Þegar hv. þingmaður vitnar til þess að í upphafi hafi verið talað um að verja heilbrigðiskerfið fyrir álagi þá er það alveg rétt. Hins vegar höfum við séð að sú bylgja sem við erum stödd í núna — sem við getum kallað aðra bylgju faraldursins, ég vildi óska að ég treysti mér til að kalla hana seinni bylgju en ég þori ekki að gera það — hegðar sér að einhverju leyti öðruvísi en sú fyrsta. Hvort sem það er vegna þess að veiruafbrigðið sé annað en það sem var hér í vor eða vegna þess að okkur takist betur upp í meðhöndlun veirunnar þá sjáum við a.m.k. að færri leggjast inn á sjúkrahús og sérstaklega á gjörgæsludeild. Að sjálfsögðu þýðir það að við munum þurfa að vega og meta stefnumótun okkar eftir því sem þekkingu okkar á veirunni og faraldrinum vindur fram. Hv. þingmaður kallar eftir markmiðum í sóttvarnaráðstöfunum. Þau eru óbreytt og hafa verið frá upphafi, þ.e. að forgangsraða í þágu lífs og heilsu. Við sjáum hins vegar ákveðnar breytingar frá fyrstu bylgju til þeirrar næstu.