150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

hækkun atvinnuleysisbóta.

[13:40]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Svo að ég svari síðustu spurningunni beint þá myndi ég ekki treysta mér til að halda því fram. Hins vegar vil ég minna á það hér að þessi ríkisstjórn hefur stigið mjög stór skref þegar kemur að málefnum atvinnuleysistrygginga. Ég vil rifja það upp að árið 2018 voru grunnatvinnuleysisbætur 227.000 kr. Það var staðan þá eftir tíð tveggja hægri stjórna í landinu. Atvinnuleysisbætur höfðu ekki hækkað umfram vísitöluhækkun frá því í hruninu. Þá var það þessi ríkisstjórn sem ákvað að hækka þær og hækka sömuleiðis þak tekjutengdra atvinnuleysisbóta og hámarksgreiðslur úr Ábyrgðarsjóði launa. Ef þetta hefði ekki verið gert væru atvinnuleysisbætur í dag u.þ.b. 238.000 kr., þ.e. þær hefðu hækkað samkvæmt vísitölu neysluverðs.

Þetta var sú staða sem ríkisstjórnin kom að. Við töldum fyrirsjáanlegt að meira álag yrði á atvinnuleysistryggingakerfið og þess vegna réðumst við í þá aðgerð að hækka grunnatvinnuleysisbætur. Hins vegar er það svo að við höfum forgangsraðað aðgerðum. Þetta var í forgangi þá, þ.e. að hækka grunnatvinnuleysisbætur og greiðslur úr Ábyrgðasjóði launa, og ég er viss um að það hefur skipt verulegu máli. Það nýjasta sem við höfum kynnt í þessu er hins vegar að lengja tímabil tekjutengingar og það gerum við vegna þeirrar stöðu sem nú er uppi, þar sem margir hafa verið að missa vinnuna vegna heimsfaraldurs. Við erum að reyna að brúa það bil sem fólk stendur frammi fyrir sem verður fyrir atvinnumissi.

Mikilvægasta verkefnið fyrir Ísland er hins vegar að við getum skapað hér fleiri störf og að við getum varið þau störf sem fyrir eru. Þess vegna er það ákvörðun ríkisstjórnarinnar að ráðast ekki í niðurskurð hjá hinu opinbera, að verja kerfin okkar, að vera ekki að ráðast í niðurskurð á þessum tímum heldur einmitt auka opinbera fjárfestingu þannig að við getum skapað fleiri störf.