150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

hertar aðgerðir ríkisstjórnarinnar við landamærin.

[13:52]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Svo að ég svari nú fyrirspurn hennar, sem hún hefur tvisvar borið upp, þá var samstaða í ríkisstjórninni um þessar aðgerðir. Og af hverju er samstaða? Jú, það er af því að við byggjum á gögnum og hv. þingmaður þekkir þau gögn vafalaust jafn vel og sú sem hér stendur. Þess vegna er rangt að tala um kúvendingu af því að við byggðum á þeirri aðferðafræði sem við lögðum upp með þann 15. júní þegar við ákváðum að fara í skimun á landamærum og höfum verið nokkuð einstök í alþjóðasamfélaginu hvað það varðar. Við höfum byggt á reynslunni sem skapaðist með þeirri skimun, með upptöku heimkomusmitgátar og þeirri reynslu sem skapaðist af upptöku heimkomusmitgátar sem leiðir okkur inn í tvöfalda skimun og sóttkví. Á hvaða gögnum byggjum við? Augljóslega þeim staðreyndum sem sýna okkur og benda til þess að ný afbrigði veirunnar hafi einmitt borist inn í landið þrátt fyrir allar varúðarráðstafanir okkar. Þess vegna geri ég athugasemd við orðanotkun hv. þingmanns en segi það (Forseti hringir.) líka að ég held að það sé mjög mikilvægt að við ræðum þessi mál hér á Alþingi því að þetta eru allt stórar ákvarðanir og það skiptir máli að það liggi fyrir nákvæmlega hvar (Forseti hringir.) stjórnmálamenn og hreyfingar standa og hvernig þær vilja forgangsraða. (Gripið fram í.) Mér finnst (Forseti hringir.) það mjög mikilvæg umræða.