150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

ríkisábyrgð á láni til Icelandair.

[13:59]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég greini það af orðum hv. þingmanns að hún og flokkur hennar hafa væntanlega efasemdir um það frumvarp sem hér liggur fyrir um veitingu ríkisábyrgðar. Ég vil bara minna hv. þingmann á að þarna hefur ríkisstjórnin frá upphafi lagt fram þau skýru leiðarljós sem ég fór yfir áðan. Við getum verið sammála eða ósammála um þau leiðarljós. Mér finnst mikilvægt að hér á landi sé starfandi flugfélag með höfuðstöðvar á Íslandi, sem sé starfandi á íslenskum vinnumarkaði. Mér finnst mikilvægt að hér sé til staðar flugfélag sem getur gegnt lykilhlutverki í að endurreisa ferðaþjónustu. Mér finnst það mikilvægt leiðarljós en ég veit ekki hvað hv. þingmanni finnst. Mér finnst það mikilvægt leiðarljós, eins og komið hefur fram í kynningu á þessu máli, að við hins vegar gætum að almannahag og almannafé með því að hafa þessar skýru girðingar sem lagðar eru hér til, þ.e. að félagið ljúki sjálft sinni fjárhagslegu endurskipulagningu, safni sjálft hlutafé og ríkið sé þar í raun og veru fyrst og fremst í stuðningshlutverki. (Forseti hringir.) Kannski er hv. þingmaður ósammála mér um öll þessi leiðarljós og þá erum við það bara.