150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

varúðarreglur vegna Covid.

[14:01]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég kom með grímu upp í ræðustól vegna þess að ég var í sjúkraþjálfun í morgun. Þar er grímuskylda. En því miður virðist sú skylda ekki gilda um alla þá sem þangað leita. Þarna er viðkvæmur hópur og ég fór að hugsa: Bíddu, er ég í meiri hættu hjá sjúkraþjálfara mínum eða hér í þingsal? Ég er búinn að vera með sama sjúkraþjálfarann í fjöldamörg ár þannig að ég tel svo ekki vera. En þá fór ég hugsa: Hvernig er staðan á þessum málum í tengslum við mannréttindi og stjórnarskrá? Eru allir jafnir þegar kemur að aðgerðum vegna Covid? Við höfum orðið vör við það á undanförnum vikum í fréttum að gerð hefur verið rassía varðandi smitvarnir á veitingahúsum. Þar hafa verið brotnar reglur, hópur fólks saman kominn, ölvaður á öldurhúsum, en á sama tíma er lokað í leikhúsunum. Þar má enginn vera og þar eru engir áhorfendur. Á sama tíma eru 22 einstaklingar að spila fótbolta í tæpa tvo tíma, tvisvar sinnum 45 mínútur í það minnsta, faðmast og gera alla hluti, en á áheyrendapöllunum má enginn vera, ekki með grímu, ekki með 2 metra millibili. Ég spyr: Hvar er samræmið í þessum hlutum? Við erum komin að þeim mörkum að við völdum íþróttahreyfingunni í landinu gífurlegu tjóni. Við völdum listamönnum gífurlegu tjóni. Er ekki kominn tími til eftir hálft ár í baráttu við þessa veiru, að við setjumst niður og gefum skýr skilaboð, höfum skýr markmið um að allir séu jafnir fyrir lögunum og að við sjáum til þess að ekki séu neinar undantekningar á því hverjir mega vera hvar og hvað má gera?