150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

varúðarreglur vegna Covid.

[14:05]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég er alveg sammála því að auðvitað þurfi að vernda hjúkrunarheimili, það þarf að vernda slíka staði og það er verið að gera það. Þau sem eru í áhættuhópi eiga líka að hafa val og það þarf að sjá til þess að þau hafi aðgang að öllu, grímum og öðru. Þessi gríma mín kostar 2.500 kr. Filtgríma kostar meira en 5 kr. gríman sem ég var með hjá sjúkraþjálfaranum í morgun, sem er örugglega að mörgu leyti betri. Þetta sýnir okkur að það er himinn og haf á milli í verðlagningu. Það er staðreynd að það er ákveðinn hópur þarna úti sem á ekki fyrir mat. Ég efast um þau eigi fyrir grímu. Ég efast um að þau eigi fyrir spritti. Ég veit ekki hvort búið er að gera ráðstafanir svo að þetta fólk geti komið og og fengið ókeypis grímur og ókeypis spritt. Er það ekki líka næst á dagskrá?