150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[14:39]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er vissulega búið að vera agalegt ár um allan heim og ekki öfundsverð staða fyrir neinn, ekki síst flugfélag á borð við Icelandair. Ljóst er að það þarf að gera eitthvað í þessu ástandi sem upp er komið og eðlilegt að við veltum fyrir okkur hvaða leiðir voru í boði. Mig langar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í þá sviðsmyndagreiningu sem gerð var. Hvaða sviðsmyndir voru skoðaðar, hvaða leiðir komu til greina og kannski ekki síst hvaða leiðir voru útilokaðar og hvers vegna? Ég spyr þó svo að ráðherra hafi vissulega farið yfir það í ræðu sinni hvers vegna ekki var talið ákjósanlegt að kaupa hlutafé frekar en að veita ríkisábyrgð. Hvernig vógu neikvæðu punktarnir þar á móti jákvæðu punktunum? Það er t.d. hægt að færa rök fyrir því (Forseti hringir.) að það búi til vont fordæmi að veita ríkisábyrgð. Það er hægt að færa rök fyrir því að þetta sé nokkurs konar þjóðnýting áhættunnar (Forseti hringir.) en einkavæðing á hagnaði.