150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[14:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hægt að standa í ræðustól hérna á Alþingi og horfa á félagið úr fjarska og segja síðan einhvern tímann á vormánuðum: Ég held að það sé best að þetta félag hætti annaðhvort rekstri og það verði stofnað nýtt eða við leggjum til hlutafé og tökum meiri hlutann, eða eitthvað slíkt. Ég held að það sé ekki ákjósanleg aðferðafræði. Ég held að það sé miklu betra að láta markaðinn svara öllum þeim áleitnu spurningum. Það er það sem við gerum með því að segja: Ef allir aðrir hafa trú á þessu, ef þið getið náð árangri gagnvart mótaðilum ykkar og ef það kemur nýtt hlutafé og þið komið með rekstraráætlun sem gengur og hafið sýnt fram á að með okkar stuðningi verðið þið rekstrarhæf, þá erum við til í að láta reyna á vilja þingsins til að koma í ábyrgð fyrir lánalínu. Á endanum verða það í sjálfu sér nýju hluthafarnir, þ.e. þeir sem er verið að biðla til um að koma með nýtt fé, (Forseti hringir.) sem fella þann dóm. Það eru þeir sem munu fella dóm um það hvort þetta var besta leiðin eða ekki. (Forseti hringir.) Ef það mistekst hjá félaginu að fara í hlutafjárútboðið þá reynir aldrei á þessa ríkisábyrgð.