150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[14:44]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra yfirgripsmikla framsögu í þessu mjög mikilvæga og stóra máli sem snertir fyrirtæki sem nýtur velvildar landsmanna. Það eru stórar spurningar uppi í því, ekki síst sem lúta að ráðstöfun á almannafé og áhættu ríkissjóðs og ríkisins almennt. Ráðherra hefur lagt áherslu á það að almannafé og áhætta eigi ekki að hafa að markmiði að verja hag hluthafa eða lánardrottna og hann tók til nokkur skilyrði varðandi þá formúleringu sem kölluð er fyrst út. Kannski væri ástæða til að spyrja hæstv. ráðherra hver þeirra ákvæða hann telur drýgst í því tilliti. Í framhaldi af því: Hefur verið gerð heildstæð áhættugreining þar sem metin yrði áhætta ríkissjóðs eftir ólíkum (Forseti hringir.) forsendum? Ég hef fleiri spurningar og mun reyna að koma þeim á framfæri í síðara andsvari.