150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[14:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Forseti. Ef ég skildi fyrirspurnina rétt er verið að kalla eftir því hvað það er af skilyrðunum sem helst dregur úr áhættunni. Ég held að það sem helst dragi úr áhættu ríkisins í málinu sé krafan um að menn klári hlutafjárútboð, fyrir utan aðra þætti fjárhagslegrar endurskipulagningar. Við erum að ræða um að það komi rétt um 20 milljarðar af nýju hlutafé, og rúmlega það, inn í félagið sem veitir því mikið súrefni inn í framtíðina. Það er í mínum huga stærsta einstaka aðgerðin í fjárhagslegri endurskipulagningu þó að annað hafi líka verið mikilvægt fyrir langtímasamkeppnishæfni félagsins.

Varðandi valkostina þá er ekki bara hægt að setja það inn í einhvern töflureikni og fá út niðurstöðu. Það fer dálítið eftir því hvar menn standa pólitískt. (Forseti hringir.) Hvaða einkunn ætla menn að gefa þeim þætti að hér sé starfandi einkarekið flugfélag í (Forseti hringir.) samkeppnisrekstri? Ég gef því háa einkunn.