150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[14:49]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Óvissuþættirnir eru nokkuð margir eins og Ríkisendurskoðun bendir á í umsögn sinni. Við í fjárlaganefnd munum að sjálfsögðu fara vel yfir það. Ríkisendurskoðun dregur m.a. fram að það sé afar ósennilegt að eignirnar sem settar eru til tryggingar fyrir endurheimt ábyrgðarinnar standi einfaldlega undir kröfunum. En gott og vel, það eru allt atriði sem við munum fara vel yfir enda erum við í stjórnarandstöðunni bara búin að hafa nokkra daga en ríkisstjórnin hefur verið í samtali við Icelandair í meira en fimm mánuði.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra að allt öðru og koma að samkeppnissjónarmiðum: Hvernig á að tryggja að lánalínan sjálf sé ekki nýtt til að bæta stöðu annarra félaga en þeirra sem snerta flugreksturinn sem eru nú þegar innan samstæðunnar og eru í samkeppnisrekstri? Það er hægt að nefna ferðaskrifstofur. Þar er bullandi samkeppni þó að þeim fari fækkandi. Hvernig getum við tryggt að lánalínan sé ekki nýtt (Forseti hringir.) til að bæta stöðu þeirra þátta? Ég mun koma að formreglum og lögum um ríkisábyrgð á eftir.