150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[14:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Veðin sem eru tekin fyrir ríkisábyrgð í þessu máli eru í raun veðin sem eftir eru. Ég held að það sé alveg rétt, það er óvissa um virði þeirra. Ég held líka að virði lendingarleyfa, ef við tökum þau sérstaklega fyrir, sveiflist yfir tíma eftir markaðsaðstæðum. Ég held hins vegar að virðið í vefsíðu og öllum bókunarkerfum og því sem þar er undir geti verið gríðarlega mikið. Þarna liggur í raun kúnstin, kúnstin að taka eins upplýstar ákvarðanir og hægt er hverju sinni þrátt fyrir óvissu. Það væri ekki mikill vandi að standa hér í þinginu eða að vera ráðherra ef maður gæti alltaf tekið ákvarðanir þar sem engin óvissa væri til staðar og allt væri alltaf á hreinu í öllum málum.(Forseti hringir.) Nú stöndum við frammi fyrir þessu og þurfum að taka ákvörðun. Oft er það þannig að það versta sem maður gerir er að taka enga ákvörðun.