150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[14:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því að það er algerlega fráleitt að taka afstöðu til málsins án þess að allir séu vel upplýstir. Við höfum, um leið og við höfum skýra mynd, deilt öllu með þinginu. Þetta eru nýskeðir hlutir. Við erum nýbúin að ljúka samningalotunni um skilyrði fyrir ríkisábyrgðinni. Þar reyndi í raun og veru endanlega á það hvort ríkið og félagið gætu yfir höfuð náð saman um skilyrðin. Við erum ekki að reyna að troða ríkisábyrgð ofan í félagið. Það er verið að sækja á ríkið um að gefa ábyrgð. Við gerum skilyrði um að peningar sem notaðir eru úr lánalínu fari bara í reksturinn. Það er alveg rétt að það er ekki hægt að hólfa það mikið meira niður. En það er spurning af hverju menn hafa sérstakar áhyggjur þarna. Það er alltaf ákveðin lína sem menn fara yfir. Vaðlaheiðargöngin voru dæmi um mál (Forseti hringir.) þar sem ég taldi að undirbúningur hefði verið ófullnægjandi. Varðandi ríkisábyrgðalögin sem slík (Forseti hringir.) þá sakna ég þess að komið sé meira efnislega inn á það hvað það er nákvæmlega í lögunum sem hefði getað gagnast við þær aðstæður (Forseti hringir.) sem eru uppi núna.

(Forseti (GBr): Forseti leiðréttir að samkomulag var um að fimm andsvarendur yrðu í þessu dagskrármáli en getið var um fjóra.)